Ferðamannakönnun 2013

Nú í sumar, 2013, lá frammi könnun á öllum helstu ferðamannastöðum á Snæfellsnesi, þar sem íslenskir og erlendir ferðamenn voru spurðir út í ferðalag sitt um svæðið og upplifun af því. Könnunin er gerð í samvinnu við Ferðamálasamtök Snæfellsness sem eru aðilar að Svæðisgarðsverkefninu. Er þetta annað sumarið í röð sem þessi könnun er gerð. 

Í fyrra voru svörin nýtt sérstaklega við gerð svæðisskipulags fyrir Snæfellsnes, sem unnið er að. Þar fengust ýmsar gagnlegar upplýsingar. M.a. kom fram að útlendingar töldu styrkleika Snæfellsness í framtíðinni liggja í ósnertri náttúru sem væri ekki of "touristic" og einstaklingsmiðaðri ferðamennsku (sem andstæðu við „massatúrsima“). Hér má sjá samantekt úr svörum 2012.

Ekki hefur verið ákveðið hvenær unnið verður úr svörum sumarsins í ár, en mikilvægt var talið að nýta tækifærið og leggja könnunina fyrir í vor/sumar og fá samanburð svara milli ára. Niðurstöður geta nýst þjónustuaðilum, sveitarfélögum og fleirum.

Norrænt skipulagsfólk kynnir sér svæðisgarð

Föstudaginn 23. ágúst 2013 var norrænt skipulagsfólk á ferð um Snæfellsnes. Þeim lék forvitni á að vita meira um svæðisskipulag Snæfellsness sem nú er í mótun og tengsl þess við frumkvöðlaverkefni Snæfellinga um svæðisgarð. 

Þær Björg Ágústsdóttir verkefnisstjóri svæðisgarðsverkefnisins og Kristín Björg Árnadóttir, Snæfellsbæ, fulltrúi í stýrihópi verkefnisins, héldu erindi fyrir hópinn í Félagsheimilinu á Arnarstapa. Hópurinn var hér á ferð í tengslum við árlegan fund norrænna skipulagsyfirvalda, í fylgd fulltrúa Skipulagsstofnunar, sem hafði veg og vanda af skipulagningu fundarins. 

Í kynningu var farið yfir aðdraganda verkefnisins og aðstæður á Snæfellsnesi. Sagt var frá svæðisskipulagsvinnunni, gögnum og greiningum sem byggt hefur verið á og áherslum á sérstöðu svæðisins. Einnig var sagt frá tengslum skipulags við uppbyggingu á sterku vörumerki og ímynd Snæfellsness og stefnu í svæðisskipulagi. 

Gestunum leist vel á verkefni og nálgun Snæfellinganna og komu ýmsum góðum ábendingum á framfæri sem nýtast munu við skipulagsgerðina og önnur viðfangsefni.

MYND:

Nútíminn og gamli tíminn mættust í gamla samkomuhúsinu á Arnarstapa! Skjávarpanum vandlega stillt upp ofan á gamalli þvottavél og vænum bunka af tímaritinu Húsfreyjunni.

Auknar upplýsingar á ensku

Vakin er athygli á því að nú eru komnar inn á svæðisgarðsvefinn meiri upplýsingar á ensku um svæðisgarð og verkfærakistu svæðisgarðs, einkum kortin í vefsjánni. Verkfærakistan hefur ekki verið þýdd sem slík, en gerð aðgengilegri fyrir enskumælandi. 

Hér er almennur kafli um svæðisgarðsverkefnið:  http://svaedisgardur.is/english

Og hér eru upplýsingar sem auðvelda enskumælandi gestum vefsíðunnar að átta sig á vefsjánni í verkfærakistu og skilja viðfangsefni hennar. 

Sjá hér: http://svaedisgardur.is/english/toolbox

Auk þess hefur verið bætt inn upplýsingum um erlenda svæðisgarða:

http://svaedisgardur.is/english/other-regional-parks

Lýsing á umhverfismati

Tekin hefur verið saman lýsing (sjá hér) á því hvernig staðið verður að umhverfismati svæðisskipulagstillögunnar sem sveitarfélögin fimm standa að. Svæðiskipulagið er kjölfestan í mótun svæðisgarðsins. Tilgangur lýsingarinnar er að gera grein fyrir efni svæðisskipulagstillögunnar og umfangi og áherslum umhverfismats tillögunnar, þannig að Skipulagsstofnun og eftir atvikum aðrir umsagnaraðilar, geti kynnt sér hvernig staðið verður að matinu og gert athugasemdir eftir því sem tilefni þykir til. Fjallað hefur verið um lýsinguna í svæðisskipulagsnefnd og hún send Umhverfisstofnun, Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og Náttúrustofu Vesturlands til umsagnar.

Þeir sem hafa athugasemdir eða ábendingar um matslýsinguna eða vilja benda á umhverfisáhrif sem stefna og ákvæði svæðisskipulagstillögunnar  kunna að valda, geta sent þær til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða til Alta, Borgarbraut 16, 350 Grundarfirði. Óskað er eftir að athugasemdir berist fyrir 26. ágúst 2013.

Ábendingar sem kunna að berast verða hafðar til hliðsjónar við nánari mótun stefnu og við umhverfismat skipulagstillögunnar. Skipulagstillagan ásamt drögum að umhverfismati (umhverfisskýrslu) verður síðan kynnt á þessum vef og send viðeigandi stofnunum og hagsmunaaðilum til umsagnar áður en endanlega verður gengið frá tillögu og umhverfisskýrslu til auglýsingar skv. skipulags- og byggingarlögum.

Snæfríður í fréttum

Snæfríður - ungt fólk á Snæfellsnesi - hefur farið vel af stað og vakið athygli. Skessuhornið gerði hópnum góð skil í frétt þann 9. júlí. Ungt fólk er hvatt til að setja sig í samband við hópinn og leggja honum lið. Sjá einnig hér.

Additional information