Gögn um Snæfellsnes

Nú hafa verið sett hér inn ýmis gögn um Snæfellsnes sem eru hluti af greiningaráfanga svæðiskipulagsverkefnisins. Gögnin er að finna undir „Verðmæti og tækifæri - Greining", sbr. lista yfir undirsíður hér til vinstri. Þessi gögn eru:

  1. Lýsing „karaktersvæða" Snæfellsness.
  2. Atlas Snæfellsness.
  3. Punktar úr spurningakönnun meðal ferðamanna sumarið 2012.

Kynnið ykkur gjarnan gögnin og sendið ábendingar, athugasemdir og hugmyndir til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Lýsing á vinnu við svæðisskipulag um svæðisgarð

Nú er tækifæri til að setja sig inn í málið!

Eins og fram hefur komið er farin af stað vinna við að móta svæðisgarð á Snæfellsnesi. Vinnan fer aðallega fram með gerð svæðisskipulags fyrir svæðisgarðinn.  

Tekin hefur verið saman lýsing á því hvernig staðið verður að vinnunni sem framundan er við að móta svæðisgarðinn.  Lýsing svæðisskipulags er „uppskriftin“ að þeirri vinnu sem felst í að ákveða viðfangsefni svæðisgarðs og verklag. Lýsingin innifelur einnig grunnupplýsingar um svæðið, byggðar á gögnum frá fjölmörgum aðilum.

Lýsingin er nú auglýst og kynnt á vef verkefnisins, svaedisgardur.is, í samræmi við 23. gr. skipulagslaga. Útprentað eintak lýsingar liggur einnig frammi á bæjarskrifstofum Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar og bókasöfnum sömu sveitarfélaga, hjá oddvitum Helgafellssveitar (Egill) og Eyja- og Miklaholtshrepps (Halldór) og hjá skipulags- og byggingarfulltrúa þeirra síðast nefndu, að Þórðargötu 18 í Borgarnesi (Jökull). 

Íbúar á Snæfellsnesi og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér lýsinguna og koma á framfæri ábendingum um nálgun og helstu forsendur áætlunargerðarinnar fyrir 1. desember 2012. Þær má senda til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða til Bjargar Ágústsdóttur, verkefnisstjóra hjá Alta, Borgarbraut 16, 350 Grundarfirði.

Hér má finna auglýsingu um lýsinguna

Og hér er lýsingin sjálf og einnig er hér viðauki við lýsinguna.

 

Fulltrúi Snæfellinga á haustþingi Samtaka norskra svæðisgarða

Norðmenn hafa á síðustu árum séð tækifæri í stofnun svæðisgarða, sem byggja á markvissu starfi við að draga fram sérstöðu svæðis og nýta landgæði og menningu til enn frekari verðmætasköpunar.

Annað árið í röð buðu þeir fulltrúum Snæfellinga að taka þátt á aðalfundi samtakanna Norske parker, þar sem koma saman fulltrúar svæðisgarða, þeirra sem þegar hafa verið stofnaðir og annarra sem nú eru í undirbúningi. 

Ragnhildur Sigurðardóttir, lektor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og sauðfjárbóndi á Álftavatni í Staðarsveit, er varaformaður svæðisskipulagsnefndar sem nú er að störfum í tengslum við svæðisgarðsverkefnið. Hún fór á eigin vegum á fundinn og var fulltrúi Snæfellinga á norska fundinum, sem að þessu sinni var haldinn í Osló, dagana 4.-5. október sl. 

Á fundinum voru flutt mörg fróðleg erindi, t.d. um hugmyndafræði svæðisgarða, um verðmætasköpun, og auk þess voru kynningar á öllum svæðisgörðum og svæðisgarðsverkefnum sem í gangi eru í Noregi. Þar er óhætt að segja að vitundarvakning sé að eiga sér stað - eins og sjá má á lista yfir erindi sem flutt voru á fundinum, sbr. umfjöllun um fundinn á vef Norske parker

Erindi Ragnhildar má sjá hér, en óhætt er að segja að Ragnhildur hafi verið á heimavelli í Noregi, því hún er umhverfisfræðingur að mennt og lærði við landbúnaðarháskólann í Ås. Ýmsir þræðir liggja einmitt frá þeim skóla yfir í hugmyndafræði og framkvæmd við stofnun norskra svæðisgarða, sem of langt mál væri að rekja hér - en gaman er að. 

Ragnhildur var ánægð með fundinn, þar fékkst gríðarmikill fróðleikur um stöðuna í norskum svæðisgörðum og hraða þróun í þeim málum í Noregi. Norðmenn eru sérlega áhugasamir um hvernig gengur með stofnun fyrsta íslenska svæðisgarðsins, á Snæfellsnesi og voru margir sem lýstu yfir vilja til samstarfs. 

Við munum segja betur frá fundinum og því sem þar kom fram, síðar, hér á vefnum. 

Norsk stjórnvöld leggja 205 millj. í svæðisgarða

Í september sl. var tilkynnt um framlag uppá 9,5 millj. norskra króna (samsvarar 205 millj. ísl.kr.) sem norsk stjórnvöld ætla að leggja til uppbyggingar svæðisgarða í Noregi, skv. fjárlögum 2012. 

Þetta kemur fram í meðfylgjandi frétt á vef samtakanna Norske Parker, sem er samstarfsnet norskra svæðisgarða (lokal og regionale parker). 

Í Noregi hafa verið stofnaðir fjórir svæðisgarðar (regionalpark), átta landslagsgarðar mynda samstarfsnet í Hordaland, tveir svæðisgarðar eru í undirbúningi og tvö svæði til viðbótar vilja ráðast í forkönnun og skoða fýsileika svæðisgarða. 

Það er Kommunal- og regionaldepartementet (ráðuneyti sveitarstjórnarmála og byggðaþróunar) sem hefur ákveðið að styðja svæðisgarða sem áhugavert samstarfsfyrirkomulag um byggðaþróun í Noregi - þar sem áhersla er lögð á verðmætasköpun, með skírskotun til náttúruarfs og menningararfs svæða. 

Framlagið er veitt í formi styrkja sem standa svæðisgörðum til boða eða þeim sem stefna að þróun eða stofnun svæðisgarðs og öðrum þeim sem standa að verkefnum sem miða að verðmætasköpun í tengslum við svæðisgarð. 

Hér má lesa frétt á vef ráðuneytisins, þar sem fram kemur áhugi og trú norskra stjórnvalda á þróun svæðisgarða sem mikilvægs tækis til byggðaþróunar.

"Svæðisgarðurinn er það sem við ákveðum að hann verði"

Margir spyrja: Um hvað snýst svæðisgarðsverkefnið? Hvað stendur til að gera? Hvernig og hvenær verður tækifæri til að taka þátt?

Það er ekki skrítið að verkefnið sé á þessum fyrstu stigum óljóst í hugum margra; það er umfangsmikið og verið er að fara nýjar leiðir við mótun stefnu um byggðaþróun og styrkingu atvinnulífs hér á landi. Þessar  leiðir eiga sér þó fyrirmyndir í evrópskum svæðisgörðum sem við aðlögum að aðstæðum hér á Snæfellsnesi.

Í stórum dráttum snýst vinnan um að greina sérstöðu Snæfellsness og tækifærin sem í henni liggja og móta síðan stefnu um hvernig þau verða nýtt Snæfellingum til framdráttar. Stefnan verður fest í svæðisskipulagi sem þá verður sá rammi sem sameinast verður um að vinna eftir.

 Sérstaðan og tækifærin verða m.a. greind með því að leita til íbúa og ferðamanna varðandi upplýsingar og hugmyndir, t.d. í gegnum spurningarkannanir, fésbókina, vef svæðisgarðsins og vinnuhópa. Upplýsingarnar verða síðan settar fram með þeim hætti að hægt sé að nýta efnið við þróun innan einstakra atvinnugreina og  til markaðssetningar á Snæfellsnesi sem heild. Þannig verður til svokölluð verkfærakista sem mun síðan stækka og þróast með árunum. Í myndbandinu hér fyrir ofan er vinnunni framundan lýst í grófum dráttum. Síðar í sumar lýsum við ítarlegar þeim hluta svæðisgarðsverkefnisins sem snýr að greiningu og stefnumörkun, þ.e. svæðisskipulaginu.

Vinnan í sumar mun einkum snúast um að:

  • Móta og dreifa spurningakönnun fyrir íslenska og erlenda ferðamenn.
  • Safna gögnum um Snæfellsnes og útbúa ýmis þemakort og gagnabanka. Leitað verður til íbúa í gegnum fésbókina varðandi efni í kortin og rýni á þeim.
  • Setja fram ítarlega lýsingu á forsendum og nálgun í svæðisskipulagsverkefninu í samræmi við skipulagslög og kynna hana.

Í haust hefst síðan vinna með vinnuhópum um einstök þemu og verður það kynnt betur með haustinu.

Additional information