Landslag er verðmæt auðlind

Á norrænu málþingi um landslagsmál sem var haldið á Selfossi 7. og 8. júní sl. var fjallað um framfylgd Evrópska landslagssáttmálans sem er á könnu Evrópuráðsins. 37 lönd hafa staðfest sáttmálann og brátt mun Ísland bætast í þann hóp því umhverfisráðherra tilkynnti á málþinginu að undirritun fari fram í París fimmtudaginn 28. júní. Lönd sem staðfesta sáttmálann samþykkja að viðurkenna mikilvægi landslags í lögum, uppfræða um gildi landslags, greina landslag og marka stefnu um það í samráði við almenning. Jafnframt eiga þau að sjá til þess að sjónarmið um verðmæti og gæði landslags séu tvinnuð inn í skipulagsáætlanir og stefnu á sviði menningar-, umhverfis-, landbúnaðar-, velferðar- og efnahagsmála. 

Svæðisgarðsverkefnið á Snæfellsnesi tekur mið af áherslum landslagssáttmálann með því að auka meðvitund um gildi landslags og þau efnhagslegu og samfélagslegu tækifæri sem búa í því; þróa aðferðir við greiningu og mat á landslagi; setja fram stefnu um viðhald og verndun landslags og hvernig gæði þess og sérkenni verða nýtt til að styrkja atvinnugreinar á svæðinu.

Í erindum á málþinginu var m.a. fjallað um mikilvægi landslags fyrir upplifun ferðamanna og heilsu og sjálfsmynd íbúa. Einnig var fjallað um mikilvæg þess að fylgjast með breytingum á landslagi og áhrifaþáttum á þær. Sýnd voru dæmi um hvernig einstök sveitarfélög og svæði eru að greina, meta og marka stefnu um sitt landslag, í þeim tilgangi að viðhalda sérkennum þess og til að nýta verðmætin sem búa í því. 

Glærur úr erindum málþingsins má nálgast á vef Skipulagsstofnunar.

Svæðisskipulag um svæðisgarð

Vinna við svæðisskipulag um svæðisgarð á Snæfellsnesi er hafin. Svæðisskipulagið gegnir því hlutverki að marka og festa í sessi sameiginlega sýn sveitarfélaganna, í nánu samstarfi við atvinnulífið, félagasamtök og íbúa, um þá þætti sem snúa að stofnun svæðisgarðs.  Í svæðisskipulagi mun birtast stefna heimamanna um svæðisgarðinn, samstarf og ýmsa mikilvæga þætti varðandi svæðið. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa skipað svæðisskipulagsnefnd sem ásamt stýrihópi svæðissgarðs mun leiða svæðisskipulagsvinnuna. 

Í svæðisskipulagsnefnd sitja: Theodóra Matthíasdóttir og Gretar D. Pálsson, fyrir hönd Stykkishólmsbæjar og er Gretar formaður nefndarinnar. Smári Björnsson og Ragnhildur Sigurðardóttir, fyrir hönd Snæfellsbæjar og er Ragnhildur varaformaður nefndarinnar. Eyþór Garðarsson og Þórður Á. Magnússon, fyrir hönd Grundafjarðarbæjar. Halldór Jónsson, fyrir hönd Eyja- og Miklaholtshrepps. Kristín Rós Jóhannesdóttir, fyrir hönd Helgafellssveitar. Eyþór Garðarsson og Þórður Á. Magnússon, fyrir hönd Grundafjarðarbæjar. Halldór Jónsson, fyrir hönd Eyja- og Miklaholtshrepps. Kristín Rós Jóhannesdóttir, fyrir hönd Helgafellssveitar.

Í stýrihópi um svæðissgarð sitja: Gyða Steinsdóttir, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, formaður hópsins. Björn Steinar Pálmason, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar. Kristín Björg Árnadóttir, bæjarfulltrúi Snæfellsbæ. Hallur Pálsson, fulltrúi búnaðarfélaganna. Bárður Guðmundsson, fulltrúi Snæfells - félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi. Þorkell Símonarson, fulltrúi Ferðamálasamtakanna. 

Svæðisskipulagsnefnd og stýrihópur hafa fundað tvisvar til þessa. Á fundunum var rætt um nálgun við svæðisskipulagsgerðina en samkvæmt skipulagsslögum ber að setja fram lýsingu á áherslum, aðferðum, forsendum og fyrirkomulagi samráðs við svæðisskipulagsgerðina. Í sumar verður slík lýsing lögð fyrir sveitarfélögin sem standa að svæðisskipulaginu. Hún verður síðan send Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum til umsagnar og kynnt almenningi og aðliggjandi sveitarfélögum. 

Á þessu myndbandi ræða Þorkell, Ragnhildur og Björg um gang mála við uppbyggingu svæðisgarðsins eftir fund svæðisskipulagsnefndar og stýrihóps, sem haldinn var á Klifi mánudaginn 4. júní 2012.

Landinn heimsótti svæðisgarðinn

Landinn kíkti í heimsókn á Snæfellsnesið og forvitnaðist um svæðisgarðsverkefnið. Þeir sem misstu af umfjöllun Landans sunnudagskvöldið 6. maí sl. geta horft hér.

Norðmenn fylgjast með

Á vef samtaka norskra svæðisgarða er sagt frá undirritun samstarfssamningsins. Það er ljóst að þeir hafa mikinn áhuga á því sem hér er að gerast og áhuga hefur orðið vart í fleiri löndum.

Undirritun samnings

Í dag var skrifað undir samstarfssamning sem leggur drög að stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Svæðisgarðurinn verður eign allra Snæfellinga, en þeir aðilar sem hafa tekið að sér að leiða verkefnið og undirbúning eru sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og félög sem eru samnefnarar í atvinnulífi á svæðinu; Ferðamálasamtök Snæfellsness, Snæfell - félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi, Búnaðarfélög Staðarsveitar, Eyja- og Miklaholtshrepps og Eyrarsveitar, ásamt SDS, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsnessýslu. 

Lesa meira...

Additional information