Landslagsgarðar í Hordaland

Enginn vafi leikur á því að Norðmenn eiga magnað landslag, vogskorin ströndin, djúpir firðir, eyjur og sker, há, svipmikil og tignarleg fjöll - allt mótað af ísaldarjöklinum sem skreið yfir landið og losaði tökin fyrir um tíu þúsund árum. 

Landslag er ekki hægt að "kópera" - í því meðal annars, felast sérkenni staða, það sem gerir þá einstaka - og fær fólk til að mynda sér skoðun, byggða á upplifun þar sem öll skilningarvitin eru virkjuð til hins ýtrasta. 

Í landslagi felast mikil verðmæti, ekki bara til að horfa á - heldur einnig til að undirstrika ímynd og gæði og móta þannig umgjörð framleiðslu eða þjónustu á svæði. Landslag eru almannagæði - eitthvað sem við eigum sameiginlega, en sem geta orðið grunnur að verðmætasköpun að frumkvæði einstaklinga. Ferðaþjónustuaðili eða matvælaframleiðandi getur nýtt landslag til að byggja upp sína vöru, kynna og selja, og skapa þannig verðmæti fyrir sitt fyrirtæki. 

Virðisaukinn eða verðmætin sem fyrirtæki eða einstaklingur búa til með þeim hætti eiga sér grunn í fyrrnefndum almannagæðum. Einstaklingurinn eða fyrirtækið hefur því hag af því hvernig landslagið þróast - t.d. hvernig samfélagið umgengst landslagið og breytir því. Íbúar - þeir sem "búa í landslaginu" hafa sömuleiðis hagsmuni og vilja hafa áhrif á hvernig landslagið þróast og hvernig nýta megi það til góðs fyrir samfélagið. 

Í auknum mæli hefur þróun landslags og stjórnun því orðið viðfangsefni í stefnumótun og skipulagsgerð.

Norðmenn nota landslagsgreiningu (landskapsressursanalyse) á virkan hátt til að draga fram sérstöðu svæða. 

Þróun framleiðslu og vöru úr heimabyggð og vörumerkjaþróun er mikilvægur hluti margra svæðisgarða. Oft eru þeir staðsettir þar sem byggð á í vök að verjast og getur þetta því verið sterkt sameiningarafl og gert þeim kleift að afla tengsla, samkeppnisyfirburða og verða sýnilegri en þeir ættu kost á sem einstaklingar eða minni hópar.

Landslagsgarðarnir í Hörðalandi byggja á þessari hugsun. Þeir miða að því að bjóða gestum svæðisins jákvæða upplifun, þar sem saman fer einstæð blanda af náttúrulegu og manngerðu landslagi, og þar sem staðbundnar hefðir, náttúra og menning er höfð í heiðri og nýtt til að búa til eitthvað alveg nýtt eða einstakt. Reynt er að nýta sérkenni og anda staðarins til að auka verðmæti framleiðslunnar eða þjónustunnar sem er boðin á svæðinu. 

Hér er um að ræða þróunarsamstarf á vegum Fylkesmannenn i Hordaland - landbúnaðarsviðs og gengur út á verðmætasköpun á svæðinu. Til samstarfsins var stofnað árið 2006. Mikið er stílað inn á ferðaþjónustu og þekkt kennileiti eða "vörumerki" svæðisins eru nýtt, t.d. jöklarnir, Hardangervidda þjóðgarðurinn, Voss, Hardangerfjord og skráning Stalheim á heimsminjaskrá UNESCO. 

Það eru einstök sveitarfélög í Hörðalandsfylki sem hafa stofnað landslagsgarðana - þeir eru því nokkurs konar "knippi" af stökum görðum, þar sem hver byggir á sinni sérstöðu. Sveitarfélögin / staðirnir eru Fyksesund, Herand, Stalheim - Sveio, Sæbö - Ulvik, Vikebygd - Hardanger og Åkrafjorden. 

Colours of the Fjords er samstarfsverkefni á svæðinu sem ætlað er að sameina listir, hönnun og arkitektúr sem nýtt verða til að styrkja svæðið - hugsunin sú að bræðingur úr öllu þessu geti búið til virðisauka fyrir svæðið og hið náttúrulega landslag þess. 

Samstarfið felst enn um sinn í þróunarverkefni sem ætlunin er að útvíkka síðar meir. 

Sem dæmi má nefna eitt verkefni sem fylkismaðurinn í Hordaland og landslagsgarðarnir efndu til sumarið 2011 í samvinnu við Kunsthögskolen í Bergen. Fimmtán einstaklingum frá ýmsum löndum var boðið til vinnusmiðju í Stalheim og Ulvik. 

Tilgangurinn var að reyna að fanga það hver væru "fyrstu áhrif" ýmissa staða á svæðinu á ferðamenn. Hvað er það sem fólk upplifir út um bílrúðuna eða þegar það stígur út í fyrsta sinn á svæðið. Og hvað er hægt að gera til að hafa áhrif á skoðanir fólks eða þessi fyrstu áhrif? Þátttakendur voru beðnir um að lýsa fyrstu tilfinningu sinni fyrir stöðunum. Auk þess var beðið um tillögur að breytingum - t.d. hvað mætti gera til að gera þorpin meira aðlaðandi í augum gesta. Tillögurnar mætti svo væntanlega nýta í stefnumótun og við forgangsröðun framkvæmda á vegum ýmissa aðila. 

Árið 2007 var farið í kynnisferð til Sviss og má lesa um þá ferð hér