Nærøyfjorden, Noregi

Nærøyfjorden svæðisgarðurinn var stofnaður fyrir tilstilli hóps heimamanna, landeigenda og atvinnurekenda á Aurland-svæðinu í kjölfar deilna heimamanna og stjórnvalda um svæðið og verndun þess. Þegar Nærøyfjorden var settur á heimsminjaskrá Unesco árið 2005 spratt upp hreyfing heimamanna sem vildu kanna möguleika þess að þróa öflugt atvinnulíf byggt á séreinkennum svæðisins í náttúru, menningu og upplifunum. 

Rétt eins og margar dreifðari byggðir á Íslandi bjó Nærøyfjorden í Noregi við fólksflótta og hægan vöxt atvinnulífs. Auk þess átti landbúnaðurinn erfitt uppdráttar og það kallaði á breytingar og spurningar um hvort rétt væri að hverfa frá fjöldaframleiðslu til framleiðslu sérvöru. Með þróun í þá átt sköpuðust möguleikar á áður óþekktri þjónustu við ferðamenn en svæðið hafði fram til þess einkennst af stuttri viðveru ferðamanna og takmarkaðri þjónustu.  

Stjórnun og rekstur svæðisgarðsins, sem einnig er heimsminjagarður, er í höndum aðila úr atvinnulífinu, landbúnaði, stofnunum og rekstri tengdum sjálfboðastarfi, að ógleymdum íbúum. Breið samstaða og sameiginlegur skilningur þessarra aðila á verkefninu er forsenda þess að vel takist til. Í dag eru um 30 fyrirtæki og stofnanir aðilar að svæðisgarðinum. 

Á svæðinu hefur verið unnið mikið í vöruþróun og þróun vörumerkja. Þekktast þeirra er "Sakte i Aurland" sem er hluti af Slow Food hreyfingunni, en það eru samtök sem voru stofnuð til höfuðs skyndibitamenningunni og til verndar staðbundnum mat og matreiðsluvenjum. Sakte snýst þó ekki aðeins um mat, heldur einnig handverk og upplifunarþjónustu. Sakte þýðir í raun "slowly" eða "rólega" og kemur því ekki á óvart að slagorð Sakte-fólks sé "Ta deg tid" og hvetji fólk til að staldra við og njóta. 

Það eru samtök úr atvinnulífinu, Aurland Næringshage AS, sem eru eigendur Sakte-verkefnisins og merkisins. 

Svæðisgarðurinn hefur einnig þróað svokallað "verkfærasett fyrir gestgjafa" (n. verktöykasse for vertskap) sem hefur að geyma aðferðafræði við að safna saman gögnum og skjalfesta hvers kyns gæði, skynjun og upplifanir sem finna má á svæðinu. Aðferðafræðin auðveldar mönnum að koma auga á sérstöðuna sem svæðið hefur að geyma og miðla henni áfram til íbúa og gesta. 

Forest of Bowland er annað dæmi um svæði sem hefur notað svipað verkfærasett (e. toolkit) með góðum árangri. Sjá hér annars staðar á vefnum.