Skírisskógur, Bretlandi

Skírisskógur á sér langa sögu í Bretlandi. Hann var útnefndur veiðilenda árið 1217, en er þekktastur á heimsvísu sem heimkynni Hróa hattar. Undanfarin 40 ár hafa skotið upp kollinum hugmyndir um að gera svæðið að svæðisgarði, til að mæta sívaxandi aðsókn, án þess að neitt hafi orðið úr. Þörfin fyrir yfirsýn og skilvirka stefnu hefur því verið bersýnileg um langt skeið. 

Árið 2007 var gerð rannsókn á því hvort fýsilegt væri að stofna svæðisgarð í kringum Skírisskóg. Leitað var svara við því hvort stofnun svæðisgarðs hefði í för með sér jákvæðar breytingar fyrir staðbundna starfsemi og gæti laðað til sín fjármagn, aukið samvinnu stofnana og stutt við samstarf og verkefni sem þegar væru starfrækt á svæðinu.

Rannsóknin leiddi í ljós að svæðisgarður væri ákjósanlegur kostur fyrir svæðið. Meðal annars var talið víst að við stofnun hans yrðu til frekari tækifæri til að laða að fjármagn, sérstaklega fjármagn þar sem svæðis- eða landsbundin markmið væru höfð að leiðarljósi. Svæðisgarður yrði heild sem hefði sterkara aðdráttarafl á fólk og fjármagn en einstakir hlutar innan svæðisins.

Í rannsókninni var núverandi skipulag í kringum svæðið einnig borið saman við svæðisgarð en á svæðinu voru þá þegar nokkur óformleg samstarfsfélög starfandi. Slíkt fyrirkomulag var þó ekki talið til þess fallið að stuðla að framþróun líkt og virk framkvæmdastjórn væri fær um, þar sem samvinna opinberra aðila, einkaaðila og sjálfboðaliða væri betur í stakk búin að ýta verkefnum áfram og tryggja langtíma fjármagn til verkefna sem skipta máli fyrir svæðið.

Niðurstaða rannsóknarinnar var meðal annars sú að með því að búa til svæðisgarð fengju "eigendur" og hagsmunaðilar tæki í hendurnar sem auðvelduðu þeim að taka mikilvæg skref með langtímasjónarmið að leiðarljósi. Nálgunin var talin góð til að:

  • Koma auga á göt í þjónustu svæðisins.
  • Greina og stuðla að lykilforgangsverkefnum í þágu alls svæðisins.
  • Greiða fyrir betra eftirliti með ferðum gesta/ferðamanna um svæðið með því að meta burðarþol svæða og beina fólki um svæðið samkvæmt því.
  • Tryggja áþreifanlegar og hugmyndafræðilegar tengingar milli staða og auðlinda.
  • Greiða fyrir þróun langtímanálgunar á gæðastjórnun, sérstaklega hvað varðar afþreyingu og ferðaþjónustu og fjárfestingar á því sviði, til að tryggja háan "standard" fjárfestinga og upplifun gesta innan svæðisgarðsins.

Á vefsíðu Nottinghamshire County Council eru hlekkir á rannsóknina og fleira efni henni tengt.