Vercors, Frakklandi

Vercors svæðisgarðurinn í Frakklandi er nálægt 206.200 hektörum að stærð og þar af er um 17.000 hektara landsvæði sem hefur verið sérstaklega friðað.

Vercors er sérstakur fyrir þær sakir að innan hans eru verndarsvæði sem rekin eru undir fleiri en einum flokki IUCN og fellur friðaða svæðið undir verndarflokk IV hjá IUCN, en byggðin undir verndarflokk V, sbr. leiðbeiningar IUCN.

Helsta markmið Vercors svæðisgarðsins er að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika en hann gegnir einnig kennslufræðilegu hlutverki. Þar er rík búsetusaga tengd bændum, hirðingjum og skógarhöggsmönnum sem garðinum er ætlað að miðla. Hann skipar jafnframt mikilvægan sess sem vörumerki ýmissa vara og þjónustu innan vébanda hans. Vörur stimplaðar "PNR du Vercors" sæta ströngu gæðaeftirliti og engum er heimilt að nota það nema hlíta ákveðnum reglum.

Að stjórn Vercors koma fjölmargir aðilar, bæði staðbundin stjórnvöld, þ.e. sveitarfélög, en einnig svæðisbundin (n.k. svæðisráð) sem og aðrir. Skipulag garðsins og markmið hans eru skráð í skipulagsskrá (e. charter). Skipulagsskráin verður að hljóta samþykki umhverfisráðuneytis, náttúruverndarráðs og samtaka svæðisgarða til að taka gildi.

Vercors er fjármagnaður af sveitarfélögum, svæðisráðum, opinberum stofnunum og fleirum, en svæðisgarðurinn nær yfir fjöldamörg sveitarfélög. Framkvæmdarstjóri er ráðinn og vinnur hann eftir skipulagsskrá. Auk hans eru ávallt a.m.k. 25-30 fastir starfsmenn. Skipulagsskráin gildir til 12 ára mest, en þá er hægt að sækja um endurnýjun sem er háð mati á svæðisgarðinum. 

Á vef svæðisgarðsins er að finna gott yfirlit yfir starfsemi hans, skipulag og fjármögnun.