Vörumerki svæðisgarða

SAKTE er vörumerki norska svæðisgarðsins Næröyfjorden og eitt þeirra merkja sem við höfum fylgst náið með í tengslum við svæðisgarðsvinnuna. Því er gaman að segja frá velgengni tveggja fyrirtækja sem framleiða undir SAKTE-merkinu og voru nýverið verðlaunuð í heimalandinu. 

Ægir brugghús var stofnað 2007 af ungu pari, Aud sem er norsk og Evan sem er bandarískur, í Flåm í Aurland. Þau yfirgáfu vel launuð störf í Silicon Valley í Bandaríkjunum og fluttu heim til Noregs. Velgengni fyrirtækisins hefur vakið athygli og það hefur fengið fjölda verðlauna á stuttum tíma. Á dögunum fékk það verðlaunin Öl ársins 2012, en 90 öltegundir frá 21 brugghúsi úr 15 sýslum tóku þátt í keppninni. Verðlaunin eru veitt af Det Norske Måltid, en tilgangur þess verkefnis er að styðja við og kynna norskan mat og staðbundinn mat og matargerð. Að verkefninu koma ráðuneyti og stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki. 

Ægir brugghús er svokallað mikrobryggeri (lítið brugghús) staðsett innan svæðisgarðsins í Nærøyfjorden sem er næst elstur af 5-6 svæðisgörðum Noregs, stofnaður í byrjun árs 2008. Svæðið hefur einnig verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 2005 og þar er náttúrufegurð mikil. Á svæðinu hefur verið unnið mikið með þróun vörumerkja og er SAKTE þeirra þekktast. SAKTE þýðir rólegur og skírskotar því nafnið í eitt af gildum merkisins sem notast við meginreglu „Slow food“-hreyfingarinnar. Slow food var stofnað til höfuðs skyndibitamenningunni og til verndar staðbundnum mat og matreiðsluvenjum. Ægir brugghús hefur valið að nota merki SAKTE í kynningu sinni og vöruþróun.  

Brugghúsið var stofnað árið 2007 og var fyrsta brugghúsið í Sogn og Fjordane sýslu. Hefur það vaxið gríðarlega frá þeim tíma. Í upphafi hafði brugghúsið framleiðslugetu upp á 100.000 lítra og seldi framleiðslu sína fyrst og fremst á heimaslóðum. Árið 2011 varð 115% söluaukning, árið 2012 voru seldir 350.000 lítrar og í ár reikna þau með að selja um 550.000 lítra. Framleiðslan er nú seld út um allan Noreg, en sem “lokal framleiðsla” með skýra sérstöðu. Í fyrra fjárfesti fyrirtækið fyrir 18 millj. NOK (ca. 360 millj. ÍSK) í auknum tækjakosti og húsnæði og framleiðir nú einnig gin og whiskey. Samhliða öl- og víngerð er rekinn veitingastaður og hótel. Stjórnendur Ægis leggja áherslu á að halda framleiðslunni innan svæðisins og heildarhugmyndin í kringum vöruna skírskotar í gamlar hefðir og handbragð. Auk þess nota þau nýnorsku við alla kynningu og við val á heitum vörutegunda. Fyrirtækið var einmitt verðlaunað árið 2011 fyrir góða notkun nýnorsku. Það var Noregs Mållag sem hældi stjórnendum og framleiðslunni, sem talin var “sterk merkevare i ein ny og veksande marknad” og gott samhengi væri milli innihalds og eiginleika vöru, nafns og málnotkunar í allri kynningu. Heiti sjálfs fyrirtækisins er sótt í norræna goðafræði, til jötunsins Ægis sem var konungur hafsins, eins og frá er sagt á vef fyrirtækisins.  

Sjá nánar í frétt á vef Norska ríkisútvarpsins NRK

Ostagerðarbúið í Undredal tók einnig nýverið við verðlaunum fyrir Ost ársins 2012 frá Det Norske Måltid. Undredal er í sveitarfélaginu Aurland, innan svæðisgarðs Nærøyfjorden. Í Undredal er sagt að búi um 100 manns og 500 geitur. 

Eins og hjá Ægi, brugghúsi, hafa stjórnendur ostagerðarinnar valið að kynna vöru sína undir merkjum SAKTE. Ostarnir eru framleiddir úr geitamjólk og er búið í eigu þriggja fjölskyldna sem samanlagt eiga 220 geitur. Erfitt er að segja til um upphafsár Undredalsostanna en þeir eiga sér mjög langa og samfellda sögu. Þar sem Undredal var án vegasambands til ársins 1986 þurfti að treysta á sölu hjá kaupmanninum á svæðinu, því var nauðsynlegt að framleiða gæðavöru til að viðskiptavinirnir kæmu aftur. Búið leggur mikið upp úr góðu samspili náttúru, manna og dýra og ganga geiturnar úti í högum á sumrin. Geiturnar eru komnar af kyni gamalla norskra mjólkurgeita og eru mjög litskrúðugar.

Verðlaunaosturinn 2012 er hvítur Undredalsostur, vel þroskaður, að sjálfsögðu úr geitamjólk og sagði dómnefndin að þessi ostur hefði “sál”. 

Sjá nánar í frétt á vef Det Norske Måltid.

Nokkrar myndir: