Norsk stjórnvöld leggja 205 millj. í svæðisgarða

Í september sl. var tilkynnt um framlag uppá 9,5 millj. norskra króna (samsvarar 205 millj. ísl.kr.) sem norsk stjórnvöld ætla að leggja til uppbyggingar svæðisgarða í Noregi, skv. fjárlögum 2012. 

Þetta kemur fram í meðfylgjandi frétt á vef samtakanna Norske Parker, sem er samstarfsnet norskra svæðisgarða (lokal og regionale parker). 

Í Noregi hafa verið stofnaðir fjórir svæðisgarðar (regionalpark), átta landslagsgarðar mynda samstarfsnet í Hordaland, tveir svæðisgarðar eru í undirbúningi og tvö svæði til viðbótar vilja ráðast í forkönnun og skoða fýsileika svæðisgarða. 

Það er Kommunal- og regionaldepartementet (ráðuneyti sveitarstjórnarmála og byggðaþróunar) sem hefur ákveðið að styðja svæðisgarða sem áhugavert samstarfsfyrirkomulag um byggðaþróun í Noregi - þar sem áhersla er lögð á verðmætasköpun, með skírskotun til náttúruarfs og menningararfs svæða. 

Framlagið er veitt í formi styrkja sem standa svæðisgörðum til boða eða þeim sem stefna að þróun eða stofnun svæðisgarðs og öðrum þeim sem standa að verkefnum sem miða að verðmætasköpun í tengslum við svæðisgarð. 

Hér má lesa frétt á vef ráðuneytisins, þar sem fram kemur áhugi og trú norskra stjórnvalda á þróun svæðisgarða sem mikilvægs tækis til byggðaþróunar.