Fulltrúi Snæfellinga á haustþingi Samtaka norskra svæðisgarða

Norðmenn hafa á síðustu árum séð tækifæri í stofnun svæðisgarða, sem byggja á markvissu starfi við að draga fram sérstöðu svæðis og nýta landgæði og menningu til enn frekari verðmætasköpunar.

Annað árið í röð buðu þeir fulltrúum Snæfellinga að taka þátt á aðalfundi samtakanna Norske parker, þar sem koma saman fulltrúar svæðisgarða, þeirra sem þegar hafa verið stofnaðir og annarra sem nú eru í undirbúningi. 

Ragnhildur Sigurðardóttir, lektor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og sauðfjárbóndi á Álftavatni í Staðarsveit, er varaformaður svæðisskipulagsnefndar sem nú er að störfum í tengslum við svæðisgarðsverkefnið. Hún fór á eigin vegum á fundinn og var fulltrúi Snæfellinga á norska fundinum, sem að þessu sinni var haldinn í Osló, dagana 4.-5. október sl. 

Á fundinum voru flutt mörg fróðleg erindi, t.d. um hugmyndafræði svæðisgarða, um verðmætasköpun, og auk þess voru kynningar á öllum svæðisgörðum og svæðisgarðsverkefnum sem í gangi eru í Noregi. Þar er óhætt að segja að vitundarvakning sé að eiga sér stað - eins og sjá má á lista yfir erindi sem flutt voru á fundinum, sbr. umfjöllun um fundinn á vef Norske parker

Erindi Ragnhildar má sjá hér, en óhætt er að segja að Ragnhildur hafi verið á heimavelli í Noregi, því hún er umhverfisfræðingur að mennt og lærði við landbúnaðarháskólann í Ås. Ýmsir þræðir liggja einmitt frá þeim skóla yfir í hugmyndafræði og framkvæmd við stofnun norskra svæðisgarða, sem of langt mál væri að rekja hér - en gaman er að. 

Ragnhildur var ánægð með fundinn, þar fékkst gríðarmikill fróðleikur um stöðuna í norskum svæðisgörðum og hraða þróun í þeim málum í Noregi. Norðmenn eru sérlega áhugasamir um hvernig gengur með stofnun fyrsta íslenska svæðisgarðsins, á Snæfellsnesi og voru margir sem lýstu yfir vilja til samstarfs. 

Við munum segja betur frá fundinum og því sem þar kom fram, síðar, hér á vefnum.