Norrænt skipulagsfólk kynnir sér svæðisgarð

Föstudaginn 23. ágúst 2013 var norrænt skipulagsfólk á ferð um Snæfellsnes. Þeim lék forvitni á að vita meira um svæðisskipulag Snæfellsness sem nú er í mótun og tengsl þess við frumkvöðlaverkefni Snæfellinga um svæðisgarð. 

Þær Björg Ágústsdóttir verkefnisstjóri svæðisgarðsverkefnisins og Kristín Björg Árnadóttir, Snæfellsbæ, fulltrúi í stýrihópi verkefnisins, héldu erindi fyrir hópinn í Félagsheimilinu á Arnarstapa. Hópurinn var hér á ferð í tengslum við árlegan fund norrænna skipulagsyfirvalda, í fylgd fulltrúa Skipulagsstofnunar, sem hafði veg og vanda af skipulagningu fundarins. 

Í kynningu var farið yfir aðdraganda verkefnisins og aðstæður á Snæfellsnesi. Sagt var frá svæðisskipulagsvinnunni, gögnum og greiningum sem byggt hefur verið á og áherslum á sérstöðu svæðisins. Einnig var sagt frá tengslum skipulags við uppbyggingu á sterku vörumerki og ímynd Snæfellsness og stefnu í svæðisskipulagi. 

Gestunum leist vel á verkefni og nálgun Snæfellinganna og komu ýmsum góðum ábendingum á framfæri sem nýtast munu við skipulagsgerðina og önnur viðfangsefni.

MYND:

Nútíminn og gamli tíminn mættust í gamla samkomuhúsinu á Arnarstapa! Skjávarpanum vandlega stillt upp ofan á gamalli þvottavél og vænum bunka af tímaritinu Húsfreyjunni.