Tvö erindi um svæðisgarðinn á ferðamálaþingi

Ferðamálaþing 2013 var haldið 2. október síðastliðinn. Yfirskrift þingsins var “Ísland – alveg milljón! - Skipulag, fyrirhyggja og framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu” og var þingið að þessu sinni samstarfsverkefni Ferðamálastofu og Skipulagsstofnunar. Þar fluttu Ragnhildur Sigurðardóttir, umhverfisfræðingur og bóndi Álftavatni Staðarsveit og varaformaður svæðisskipulagsnefndar um svæðisgarð á Snæfellsnesi og Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta erindi um svæðisgarðasverkefnið.

Á þinginu kom berlega í ljós hve samtvinnuð skipulagsmál og ferðamál eru og hve mikilvæg stefnumótun og skipulagsgerð er fyrir þróun ferðaþjónustugeirans á Íslandi. Svæðisgarðsverkefni Snæfellinga snýst að miklu leyti um að tengja ferðaþjónustugeirann við aðra atvinnugeira og að marka stefnu þar um. Þannig er í svæðisskipulagi sett fram stefna fyrir daglegt líf íbúa – atvinnu, búsetu og umhverfi – sem um leið er stefna fyrir ferðaþjónustugeirann í samhengi við aðra geira samfélagsins. Um þetta fjölluðu þær Ragnhildur og Matthildur í erindum sínum á þinginu.

Erindi Ragnhildar bar titilinn “Samvinna í samkeppni – Svæðisgarðurinn Snæfellsnes” og má hlýða á það hér. Matthildar erindi, “Andi Snæfellsness – auðlind til sóknar”, má síðan hlusta á hér.