Andi Snæfellsness - Auðlind til sóknar!

Kynning á tillögu að svæðisskipulagi Snæfellsness

Mótun svæðisskipulags fyrir Snæfellsnes er nú langt komin og var heildstæð tillaga kynnt fyrir skipulagsnefndum og sveitarstjórnum á Snæfellsnesi á fundi í Fjölbrautaskóla Snæfellinga 11. mars sl.  Í kjölfarið var tillagan send til ríflega 100 aðila og óskað eftir athugasemdum þeirra og ábendingum. Unnið verður úr þeim umsögnum og tillagan kynnt fyrir almenningi hér á þessum vef innan tíðar, áður en gengið verður frá henni til athugunar Skipulagsstofnunar og síðan formlegrar auglýsingar skv. skipulagslögum

Svæðisskipulagið er sóknaráætlun Snæfellinga, um það hvernig þeir - sveitarfélögin og atvinnulífið í samvinnu við íbúa - hyggjast stuðla að því í sameiningu að atvinnulíf og byggð á Snæfellsnesi taki í auknum mæli mið af sérkennum svæðisins m.t.t. náttúru, menningar og mannauðs, sem aftur fléttast saman í staðaranda Snæfellsness.

Svæðisskipulagstillagan skiptist í þrjá meginhluta: Framtíðarsýn, grunn og áætlun. Á eftir áætluninni er því lýst hvernig staðið verður að framfylgd hennar. 

Í framtíðarsýninni er dregin upp mynd af því hvað einkenni Snæfellsnes í framtíðinni. Jafnframt er lagður grunnur að sameiginlegri ímynd (vörumerki) fyrir allt Snæfellsnes. Svæðisskipulagið er áætlun sem á að hjálpa til við að byggja upp sterkt og gott "brand" fyrir svæðið. Auk þess er í svæðisskipulaginu að finna efni, sem nýta má markvisst í allri markaðssetningu og kynningu fyrir snæfellska vöru, þjónustu og svæðið í heild.

Í grunninum er gerð grein fyrir helstu verðmætum og tækifærum sem liggja í umhverfi, menningu og mannauði Snæfellsness. Dregin eru saman helstu verðmæti og tækifæri svæðisins, sem fulltrúar í vinnuhópum tilgreindu eða sem lesa má út úr ýmsum heimildum og stefnu sem mörkuð hefur verið á svæðinu. 

Áætlunin sjálf, sem skilgreinir markmið og leiðir að þeim, er sett fram í sex málaflokkum eða þemum. Þau eru lífsgæði, landslag, matur, iðnaður og skapandi greinar, ferðalag og síðan grunngerð og stjórnun. Þessi þemu byggja á hlutverki svæðisskipulagsins og greiningu á efni frá vinnuhópum. Hvert þema skiptist upp í fjögur viðfangsefni. Viðfangsefnin eru útfærð með markmiðum og leiðum að þeim. 

Markmiðin eru þrennskonar: Markmið sem snúa að mótun umhverfis og byggðar til nánari útfærslu í aðal- og deiliskipulagi og við veitingu framkvæmda- og byggingarleyfa. Markmið sem snúa að þróun atvinnustarfsemi, þ.m.t. vöruþróun og þróun opinberrar og einkarekinnar þjónustu við heimamenn og gesti, til nánari útfærslu í fjárhags-, framkvæmda- og verkefnaáætlunum sveitarfélaganna í samvinnu við atvinnulífið, stofnanir og félagasamtök.

Markmið sem snúa að þekkingu, miðlun og markaðssetningu, til nánari útfærslu í fjárhags-, framkvæmda- og verkefnaáætlunum sveitarfélaganna í samvinnu við atvinnulífið, stofnanir og félagasamtök.

Vefur með svæðisskipulagstillögunni verður nánar kynntur hér innan tíðar.