Svæðisgarðurinn Snæfellsnes stofnaður

Heimamenn á Snæfellsnesi hafa undirritað sáttmála um stofnun Svæðisgarðsins Snæfellsness. Það var gert föstudaginn 04.04.2014 - í nýjum sal, Rjúkanda, að Vegamótum á Snæfellsnesi. Þar voru saman komnir fulltrúar frá samstarfsaðilunum ellefu til að fagna þessum áfanga. Að lokinni undirskrift og fyrsta fundi eigendaráðs voru flutt nokkur ávörp. 

Fram kom í máli Kristínar Bjargar Árnadóttur, bæjarfulltrúa í Snæfellsbæ að íbúar Snæfellsness hefðu sýnt mikið áræði og frumkvæði með því að ríða nú á vaðið við stofnun þessa fyrsta svæðisgarðs á Íslandi. Þetta væri mikilvægt spor í byggðaþróun og til uppbyggingar sjálfbærara samfélags - sóknaráætlun svæðisins í raun. Leita þurfi leiða til að fá aftur heim unga og efnilega Snæfellinga sem hafi flutt suður eða til útlanda til að mennta sig. Þar komi svæðisgarðurinn sterkur inn. Svæðisgarðurinn sé einnig sterkt tæki til að styrkja innviðina - innanfrá, með skýra sameiginlega sýn um þróun atvinnulífs og samfélags.

Gretar D. Pálsson, formaður nefndar um svæðisskipulag sem er hryggjarstykkið í svæðisgarðinum, sagði:  “Þetta er söguleg stund, til hamingju með það og þegar fram í sækir þá eigið þið eftir að muna það að þið voruð stödd hérna”. Í máli hans kom einnig fram að sú mikla einurð og samstaða sem verið hafi á milli sveitarfélaganna og annarra sem að hafa komið, sé eftirtektarverð.

Lárus Ástmar Hannesson bæjarstjóri í Stykkishólmi benti í ávarpi sínu á mikilvægi samvinnu og þess að kynna svæðisgarðinn svo íbúar átti sig á því hversu öflugt tæki hann geti verið. 

Loks tók Björg Ágústsdóttir, ráðgjafi hjá Alta til máls og þakkaði fyrir gott samstarf. Það væri einstakt að fá að taka þátt í uppbyggingarverkefni sem þessu. Svæðisgarðurinn snérist um breitt samstarf, þar sem horft væri til langs tíma og verið væri að byggja upp varanleg samskipti á milli atvinnulífs og sveitarfélaganna. Hún rifjaði upp þau tækifæri sem sköpuðust þegar Íslendingar settu fyrst vél í bát í byrjun 20. aldar. Engan hefði órað fyrir þeim breytingum sem urðu í kjölfarið, þegar sókn hófst á ný og fjarlægari mið og mikil þekking byggðist upp í sjávarútvegi og fleiri greinum. Við byggjum áfram á þeirri þróun sem var á síðustu öld, en það þurfi enn að auka þekkinguna, til nýrrar sóknar. Því er ég stolt af Snæfellingum sem hafa ákveðið að þekking og samvinna sé undirstaðan fyrir framfarir á þessari öld. Það þarf nýjar leiðir til að opna nýjar dyr. Enn og aftur eru Snæfellingar frumkvöðlar. 

Keli vert í Langaholti óskaði öllum gleðilegrar hátíðar, þetta væru flottir hlutir sem Snæfellingar væru að gera. Það hefði verið skemmtilegt að koma að því að koma svæðisgarðinum á koppinn og framtíðin björt. Í anda verkefnisins væri viðeigandi að skrifa undir samninginn á Vegamótum þar sem ungt fólk væri að koma inn með skemmtilega viðbót við ferðaþjónustuna. 

Að ávörpum loknum var skálað í dýrindis ölkelduvatni sem Kristján Þórðarson bæjarfulltrúi og bóndi á Ölkeldu kom með “beint úr brunni” og snæddar dýrindis krásir úr héraði matreiddar af Kela í Langaholti og Rúnari Marvinssyni matreiðslumeistara, ásamt mæðgunum á Vegamótum, Hrefnu Birkisdóttur og Sigrúnu Erlu Eyjólfsdóttur, dóttur hennar og tengdasyni Gabriel Frank. Keli sá um fiskinn; karfa, þorsk og lúðu nýfengið frá Fiskmarkaði Íslands og bláskel og hörpudisk frá Símoni Sturlusyni í Íslenskri bláskel og sjávargróðri, Stykkishólmi. Vegamótavertarnir reiddu fram kálfakjöt af séröldum kálfum frá Stakkhamri, kartöflur frá Hraunsmúla og fyrstu uppskeru grænmetis frá ræktunarstöðinni Lágafelli. Allt smakkaðist þetta frábærlega.

Hér er stutt myndaband frá stofnfundinum á Vegamótum.

Hér má sjá fleiri myndir.