Svæðisgarðurinn Snæfellsnes stofnaður

Heimamenn á Snæfellsnesi hafa undirritað sáttmála um stofnun Svæðisgarðsins Snæfellsness. Það var gert föstudaginn 04.04.2014 - í nýjum sal, Rjúkanda, að Vegamótum á Snæfellsnesi. Þar voru saman komnir fulltrúar frá samstarfsaðilunum ellefu til að fagna þessum áfanga. Að lokinni undirskrift og fyrsta fundi eigendaráðs voru flutt nokkur ávörp. 

Lesa meira...

Andi Snæfellsness - Auðlind til sóknar!

Kynning á tillögu að svæðisskipulagi Snæfellsness

Mótun svæðisskipulags fyrir Snæfellsnes er nú langt komin og var heildstæð tillaga kynnt fyrir skipulagsnefndum og sveitarstjórnum á Snæfellsnesi á fundi í Fjölbrautaskóla Snæfellinga 11. mars sl.  Í kjölfarið var tillagan send til ríflega 100 aðila og óskað eftir athugasemdum þeirra og ábendingum. Unnið verður úr þeim umsögnum og tillagan kynnt fyrir almenningi hér á þessum vef innan tíðar, áður en gengið verður frá henni til athugunar Skipulagsstofnunar og síðan formlegrar auglýsingar skv. skipulagslögum

Svæðisskipulagið er sóknaráætlun Snæfellinga, um það hvernig þeir - sveitarfélögin og atvinnulífið í samvinnu við íbúa - hyggjast stuðla að því í sameiningu að atvinnulíf og byggð á Snæfellsnesi taki í auknum mæli mið af sérkennum svæðisins m.t.t. náttúru, menningar og mannauðs, sem aftur fléttast saman í staðaranda Snæfellsness.

Lesa meira...

FSN og bandarískir nemar stúdera Snæfellsnes

Í október 2013 fengu nemar í FSN góða heimsókn. Nemendur frá University of Washington í Seattle í Bandaríkjunum dvöldu á Snæfellsnesi um vikutíma. Heimsóknin var hluti af Íslandsferð hópsins undir stjórn dr. Margaret E. Willson sem er prófessor við háskólann í Washington. 

Saman unnu nemendurnir í fimm hópum að verkefnum um ungt fólk og svæðisgarðinn Snæfellsnes. Niðurstöður undirstrikuðu mikilvægi sjávarútvegs og hvernig hann getur þróast, nauðsyn þess að styrkja innviði og fjölga atvinnumöguleikum. Einnig kom fram að fróðlegt og skemmtilegt væri að tengja saman landslagið við þjóðsögur og Íslendingasögur sem gerast á svæðinu. Sögur séu lykillinn að því að skilja og tengjast landsvæðinu og fólkinu þar. 

FSN-nemar voru í hlutverki gestgjafa og leiðsögumanna vítt og breitt um Snæfellsnesið og m.a.s. á sjó. Auk þess spjölluðu nemendurnir við íbúa á svæðinu.

Þau Johanna Van Schalkwyk og Loftur Árni Björgvinsson kennarar við FSN höfðu umsjón með verkefninu, ásamt dr. Willson sem hafði veg og vanda af heimsókn nemendanna.

Hér má finna kynningar hópanna fimm, en viðfangsefni þeirra voru:

Snæfríður á íbúaþingi í Grundarfirði

Snæfríður - ungt fólk á Snæfellsnesi hefur þann tilgang að gera Snæfellsnesið enn skemmtilegra fyrir ungt fólk - til að starfa og búa á í framtíðinni. Félagið vinnur m.a. að því að ungt fólk kynnist hvert öðru, svæðinu og atvinnulífinu enn betur. 

Á íbúaþingi sem Grundarfjarðarbær efndi til 23. nóvember 2013 kynnti Silja Rán Arnarsdóttir félagið Snæfríði og hugmyndir Snæfríðar-fólks um framtíðarverkefnin.

Silja Rán er í stjórn Snæfríðar. Hér má lesa erindið hennar og hér fyrir neðan má sjá lokaorðin hennar á þinginu, m.a. hvatningu til fólks um að ganga til liðs við Snæfríði og setja fram hugmyndir sínar.

Tvö erindi um svæðisgarðinn á ferðamálaþingi

Ferðamálaþing 2013 var haldið 2. október síðastliðinn. Yfirskrift þingsins var “Ísland – alveg milljón! - Skipulag, fyrirhyggja og framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu” og var þingið að þessu sinni samstarfsverkefni Ferðamálastofu og Skipulagsstofnunar. Þar fluttu Ragnhildur Sigurðardóttir, umhverfisfræðingur og bóndi Álftavatni Staðarsveit og varaformaður svæðisskipulagsnefndar um svæðisgarð á Snæfellsnesi og Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta erindi um svæðisgarðasverkefnið.

Á þinginu kom berlega í ljós hve samtvinnuð skipulagsmál og ferðamál eru og hve mikilvæg stefnumótun og skipulagsgerð er fyrir þróun ferðaþjónustugeirans á Íslandi. Svæðisgarðsverkefni Snæfellinga snýst að miklu leyti um að tengja ferðaþjónustugeirann við aðra atvinnugeira og að marka stefnu þar um. Þannig er í svæðisskipulagi sett fram stefna fyrir daglegt líf íbúa – atvinnu, búsetu og umhverfi – sem um leið er stefna fyrir ferðaþjónustugeirann í samhengi við aðra geira samfélagsins. Um þetta fjölluðu þær Ragnhildur og Matthildur í erindum sínum á þinginu.

Erindi Ragnhildar bar titilinn “Samvinna í samkeppni – Svæðisgarðurinn Snæfellsnes” og má hlýða á það hér. Matthildar erindi, “Andi Snæfellsness – auðlind til sóknar”, má síðan hlusta á hér.