Snæfellingar á fundi hjá Norske parker

Tveir fulltrúar Snæfellinga sóttu vinnufund samtaka norskra svæðisgarða (Organisasjonen Norske parker) sem var haldinn í Finnskogen í Noregi 2. til 3. nóvember 2011. 

Þrír svæðisgarðar hafa verið settir á laggirnar í Noregi og hefur starf þeirra vakið tiltrú þannig að enn fleiri svæði undirbúa nú sambærileg verkefni. Haustið 2011 lagði norska ríkisstjórnin 10 millj. NOK (225 millj. ISK á verðlagi í byrjun mars 2012) í að efla og styrkja þróun norskra svæðisgarða, sem álitin er mikilvægt framtak heimamanna sjálfra til árangursríkrar atvinnuþróunar og eflingar heimahaganna. 
Hluti þess fjár hefur farið í að byggja upp tengsla- og þekkingarnet þeirra sem að þessum málum starfa í Noregi og var vinnufundurinn liður í þeirri uppbyggingu.

Á fundinum var rætt um reynslu og tækifæri Norðmanna af svæðisgörðum. Svíar komu þarna einnig við sögu því í undirbúningi er stofnun svæðisgarðs í Finnskogen, beggja vegna landamæranna í Noregi og Svíþjóð. Snæfellingar voru gestir á fundinum því Kristín Björg Árnadóttir, bæjarfulltrúi í Snæfellsbæ og Björg Ágústsdóttir ráðgjafi hjá Alta, voru þar og hélt Björg erindi um mótun svæðisgarðsins á Snæfellsnesi. Sjá nánar umfjöllun Bjargar um fundinn og einnig frétt á norsku hér.