Friðlýst hús og kirkjur

Þemu: Matarkistan || Sagnaarfur || Friðlýst hús og kirkjur || Landslag og leiðir || Sjósókn fyrri tíma || Öll þemu

Smelltu hér til að opna heildarkort í nýjum glugga með öllum þekjum. Velja má þekjur inn á kortið.

Stækka má myndina ("súmma inn") með því að ýta á plús, minnka hana með því að ýta á mínus og færa hana til með því að halda músinni niðri og færa.

Smelltu á "Legend" efst til vinstri á kortinu til að sjá skýringar.

Fjórtán friðlýstar byggingar eru á Snæfellsnesi. Elstu byggingarnar, fiskbyrgi í Bæjarhrauni, eru jafnvel talin reistar á 15. eða 16. öld. Einn viti, Malarrifsviti er friðlýstur. 

Á Snæfellsnesi eru 15 kirkjur, þar af eru sjö friðlýstar (38. mynd). Rauðmelskirkja er lítil timburkirkja, reist 1886. Búðakirkja er reist á árunum 1847-1850, fyrir tilstilli Steinunnar Lárusdóttur, sem barðist fyrir endurreisn hennar. Hún var reist á grunni kirkju frá um 1700. Margt gamalla muna er þar, meðal annarra klukka frá 1672, altaristafla frá 1750 og hurðarhringur frá 1703. Ingjaldshólskirkja var byggð 1903 og er að öllum líkindum elsta steinsteypta kirkja í heimi. Þegar útræði var hvað mest á Snæfellsnesi var prestakallið þriðja stærsta á landinu. Hönnuður kirkjunnar er Jón Sveinsson forsmiður, en Rögnvaldur Ólafsson arkitekt sá um breytingar á henni árið 1914. Setbergskirkja er byggð 1892, hönnuð af Sveini Jónssyni forsmiði frá Djúpadal. Á Setbergi hefur verið kirkja frá 12. öld. Í Bjarnarhöfn hefur einnig verið kirkja frá 12. öld. Sú bygging sem nú stendur er frá árunum 1856-1858. Altaristafla hennar var gefin kirkjunni á 17. öld þegar Hollendingar stunduðu fiskveiðar við Ísland. Kaleikur kirkjunnar er líklegast frá því um 1280.

Helgafell þar sem Helgafellskirkja stendur er með elstu kirkjustöðum á landinu, en þar hefur verið kirkja frá því kristni var lögtekin á Alþingi. Guðrún Ósvífursdóttir er jörðuð á Helgafelli, en þar bjó hún eftir að þau Snorri goði skiptu á bústöðum. Snorri goði lét reisa fyrsta guðshúsið þar, en núverandi kirkja er byggð 1903 á sama grunni og eldri kirkja sem þar stóð. Hönnuður kirkjunnar er Sveinn Jónsson, forsmiður frá Djúpadal. Stykkishólmskirkja er byggð á árunum 1878-1879. Hönnuður hennar var Helgi Helgason, forsmiður í Reykjavík. 

Heimildir:

  Húsafriðunarnefnd, maí 2012 og www.kirkjukort.net 

 
Kortagrunnurinn er byggður á gögnum Landmælinga Íslands.