Sagnaarfur

Þemu: Matarkistan || Sagnaarfur || Friðlýst hús og kirkjur || Landslag og leiðir || Sjósókn fyrri tíma || Öll þemu

Smelltu hér til að opna heildarkort í nýjum glugga með öllum þekjum. Velja má þekjur inn á kortið.

Stækka má myndina ("súmma inn") með því að ýta á plús, minnka hana með því að ýta á mínus og færa hana til með því að halda músinni niðri og færa.

Smelltu á "Legend" efst til vinstri á kortinu til að sjá skýringar.

Fornsögur

Snæfellsnes hefur að geyma merka sögu og menningar¬minjar. Það hefur verið í byggð frá upphafi landnáms en samkvæmt Landnámu nam Björn Austræni Bjarnarhöfn, Þórólfur Mostraskeggi Helgafell og Sel-Þórir Ytri-Rauðamel, en þeir þóttu göfugastir landnámsmanna á Snæfellsnesi.  

Þórsnesþing við Stykkishólm er talið elsta þing Íslandssögunnar ásamt Kjalarnesþingi. Á Þórsnesi er jafnframt Helgafell þar sem Þórsnesingar gengu inn við dauða sinn. Snorri goði bjó á Helgafelli en hafði jarðarskipti við Guðrúnu Ósvífursdóttur sem er jörðuð að Helgafelli. Álftafjörður, austan Þórsness, Helgafellssveit og Eyraroddi eru helsta sögusvið Eyrbyggju, eins og sjá má á korti nr. 18, þó hún teygi anga sína sannarlega allt vestur að Búlandshöfða og Fróðá þar sem sagt er frá Fróðárundrunum. Örnefni í Álftafirði, sérstaklega, bera þess merki að þar er sagan við hvert fótmál. 

Eiríkur rauði kemur við sögu á Snæfellsnesi. Hann var fyrstur landnámsmanna til að nema land í eyjunum útaf Breiðafirði. Örnefni í Öxney bera glöggt vitni um að þar hafi hann átt búsetu og enn sér fyrir rústum af bæjarstæðum sem við hann eru kennd. Eftir að Eiríkur var dæmdur á Þórsnesþingi lagði hann upp frá Eiríksvogi í leit að Grænlandi. Eiríks saga rauða segir einnig frá Guðríði Þorbjarnardóttur frá Laugarbrekku, sem var uppi í kringum árið 1000. Hún er talin kvenna víðförlust, en hún ferðaðist fyrst til Grænlands og svo til Vínlands þar sem hún ól barn og er oft talað um hana sem „fyrstu hvítu móðurina í Ameríku“. 

Vestan Fróðárheiðar er ríki Snæfellsjökuls, en ekki síður ríki Bárðar Snæfellsáss sem tók land við Dritvík. Saga hans á sér að mestu stað „undir Jökli“ þar sem mörg örnefni vísa til vistar hans á svæðinu. Bárður Snæfellsás gekk að lokum inn í jökulinn og er talað um að enn í dag heiti menn á hann þegar þeir lenda í vandræðum. Aðrar Íslendingasögur sem teygja anga sína á Snæfellsnesið eru meðal annarra Gísla saga Súrssonar, Heiðarvígasaga, Víglundarsaga og Laxdæla.

Texti fornrita (Netútgáfan):

Eyrbyggja || Bárðar saga Snæfellsáss || Eiríks saga rauða || Grænlendinga saga || Gísla saga Súrssonar || Heiðarvíga saga || Laxdæla || Landnáma 

Þjóðsögur

Þegar kort yfir staði tengda þjóðsögum og sögnum er skoðað sést hve þær eru tengdar ferðaleiðum og landslagi. Til dæmis eru margar sögur tengdar leiðinni yfir Fróðárheiði og leiðinni yfir Vatnaheiði.

Texti þjóðsagna (Netútgáfan)

Sérstakar / merkar persónur

Snæfellsnes hefur alið marga merkismenn í gegnum tíðina og verið innblástur listamanna í myndlist, ljóðlist, ritlist og þar fram eftir götunum. Hér að neðan verða tæpt á nokkrum tengingum við listamenn og sögupersónur sem tengjast Snæfellsnesi, en listinn er langt frá því að vera tæmandi. 

Á Staðastað var Ari fróði prestur, en talið er að hann hafi ritað Íslendingabók þar. Ari er einnig talinn hafa átt stóran þátt í ritsmíðum Landnámu. Auk hans bjó Sturla Þórðarson, sem talinn er aðalhöfundur Sturlungu þar um tíma. Á 20. öld var þar prestur Kjartan Kjartansson sem talið er að Halldór Kiljan Laxness hafi haft sem fyrirmynd að Jóni Prímusi í Kristnihald undir Jökli. Auk hennar er bók Laxness, Heimsljós talin innblásin af fólki og landslagi Snæfellsnessins. Jóhannes Kjarval var árlegur gestur á Snæfellsnesi á árunum 1940-1948. Hann málaði gjarnan við Einarslón sem var eina landið sem hann eignaðist nokkurn tímann.

Leyndardómar Snæfellsjökuls eftir franska rithöfundinn Jules Verne er þekkt vísindaskáldsaga sem gerist í iðrum eldkeilunnar. Þá er hermt að landkönnuðurinn Kristófer Kólumbus hafi dvalið einn vetur á Ingjaldshóli áður en hann hóf leit að Ameríku. 

Mörg þekkt ljóðskáld tengjast Snæfellsnesi á einn eða annan hátt, til dæmis Jónas Hallgrímsson, Sigurður Breiðfjörð sem ólst upp í Rifgirðingum, Steingrímur Thorsteinsson sem fæddist á Arnarstapa, Margrét Jónsdóttur er samdi „Ísland er land þitt“, Stapakryplingurinn sem var eitt helsta alþýðuskáld Íslands á sínum tíma og Þórður frá Dagverðará, en hann er oft kallaður hinn eini sanni Jöklari.

Heimildir:
 
  Á. Einarsdóttir o.fl., mars 2003
 
Kortagrunnurinn er byggður á gögnum Landmælinga Íslands.