Samstarf og samráð

Þeir sem leiða svæðisgarðsverkefnið eru sveitarfélögin, samtök í atvinnulífinu og félagasamtök, en árangur verkefnisins byggir á að allt samfélagið á Snæfellsnesi verði virkjað og að haft verði samráð við þá fjölmörgu aðila sem tengjast lífi og starfi á svæðinu. Við mótun tillögu að svæðisskipulagi fyrir Snæfellsnes hefur verið leitast við að ná til sem flestra, ýmist með upplýsingagjöf eða með því að leita eftir þátttöku íbúa og annarra í vinnuhópum.

Settir voru á fót nokkrir vinnuhópar, með fulltrúum úr mismunandi geirum atvinnulífsins, sem fjölluðu um þau viðfangsefni sem svæðisskipulagið nær til. Fulltrúar úr svæðisskipulagsnefnd og stýrihópi voru í forsvari fyrir hvern hóp. Hóparnir greindu stöðu og tækifæri og settu fram tillögur að áherslum og stefnu, hver fyrir sitt viðfangsefni.

Auk samstarfs við vinnuhópa var vinnan kynnt fyrir íbúum Snæfellsness í gegnum fésbókarsíðu verkefnisins og á vef þess.  Á vefnum voru birt drög að kortum, greiningum og tillögum og leitað eftir sjónarmiðum áhugasamra þar um. 

Heildatillaga verður kynnt fyrir íbúum á vef eða með öðrum hætti áður en hún verður formlega auglýst skv. skipulagslögum.