Spurt og svarað

Hvað er svæðisgarður? 

Svæðisgarður er samstarfsvettvangur þar sem byggt er á sérstöðu svæðis og hún nýtt á markvissan hátt til verðmætasköpunar. Markmiðið er að samfélagið þekki betur þau tækifæri sem felast í nærtækum gæðum svæðisins (í þessu tilfelli Snæfellsness), og nýti þau, til að styrkja stoðir undir fjölbreyttari atvinnusköpun.

Hvað fæst með svæðisgarði?

Hann gefur yfirsýn yfir auðlegð svæðisins, kostina okkar og gæði - og þar með gefur hann okkur færi á að sjá í nýju ljósi tækifæri fyrir atvinnulíf og einstaklinga, til að moða úr. Við sjáum á myndrænan hátt hvað það er sem við getum verið stolt af, púslum saman því sem við ekki sáum áður og setjum auðinn okkar í stærra samhengi.

Geta öll svæði orðið svæðisgarður?

Svæðisgarður nær yfir svæði sem býr yfir einstakri náttúrurfegurð, menningu og sögu - og hefur vegna þess sérstakt aðdráttarafl. Mörk svæðisins þurfa að vera trúverðug þannig að íbúar og gestir skynji svæðisgarðinn sem eina samofna heild. Einvörðungu þannig er auðvelt að skýra og miðla sérstöðunni og nýta hana sem grunn til að styrkja atvinnulíf, menningu og mannlíf.

Hver er saga svæðísgarða?

Svæðisgarða má finna í fjölmörgum löndum og þeir eiga sér víða langa sögu svo sem í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og Sviss, Bandaríkjunum og Kanada. 

Fyrstu svæðisgarðarnir voru til dæmis stofnaðir í Frakklandi 1967. Þar eru núna 46 svæðisgarðar, 9 þjóðgarðar og 2 jarðvangar, þarf af er annar jarðvanganna einnig hluti af öðrum samstarfsvettvangi UNESCO svokallaður lífshvolfsgarður (e. Man and Biosphere Park). Fleiri svæðisgarðar tengjast einnig öðrum samstarfsvettvöngum UNESCO. Sem dæmi má taka Næröfjorden, fyrsta svæðisgarðinn sem Norðmenn stofnuðu 2006. Sá er stofnaður í kringum svæði sem samþykkt var á heimsminjaskrá UNESCO 2005 og svæðisgarðinn Entlebuch í Sviss sem stofnaður var 2001 og er einnig lífshvolfsgarður UNESCO. Þannig styður eitt annað, eflir og styrkir enda samstarf á svæðisvísu ávallt leiðarljósið í öllum þessum görðum. 

Hver er reynsla annarra þjóða?

Reynslan sýnir að þar sem vel hefur verið staðið að uppbyggingu og rekstri svæðisgarða hafa þeir reynst lyftistöng fyrir samfélög, öflugt tæki til byggðaþróunar og hafa snúið vörn í sókn þegar kemur að uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra á fjölmörgum sviðum, s.s. í matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu o.fl.

Svisslendingar hafa á síðustu árum verið mjög duglegir að nýta svæðisgarða í þessu skyni. Þeir segja (Entlebuch svæðisgarðurinn) að fyrir hverja 3 franka sem lagðir séu til svæðisgarðs, þá skili 5-7 sér til baka fyrir efnahag svæðisins. 

Norðmenn hófu uppbyggingu svæðisgarða fyrir 5-6 árum, þar sem hugmynd að fyrsta svæðisgarðinum kom algerlega úr grasrótinni. Norðmenn hafa farið víða, kynnt sér erlendar fyrirmyndir og dregið lærdóm af. Þrír svæðisgarðar hafa verið stofnaðir í Noregi og er reynsla þeirra af þeim svo góð að enn fleiri svæðisgarðar eru í pípunum.

Er einhver munur á svæðisgarði og þjóðgarði? 

Þjóðgarðar eru í eigu þjóðarinnar og fylgja lögum sem um þá gilda. Svæðisgarðar eru stofnaðir af þeim samfélögum þar sem þeir starfa, eru sameign þeirra íbúa sem þar búa og lúta leikreglum sem íbúar og þeir sem að koma, setja þeim.

Er einhver munur á jarðvangi (e. Geopark) og svæðisgarði (e. regional park)?

Jarðvangur nær yfir svæði sem hefur merkilega jarðfræðiarfleifð og einstaka jarðsögu. Markmiðið er að mennta, miðla og skýra jarðsöguna, formin, ferlana og skeiðin á áhugaverðan hátt, ásamt sögu og menningu á því svæði. Talið er að þannig megi laða að ferðamenn og styðja við ferðaþjónustuna og aðra afleidda þjónustu. 

Hvenær voru fyrstu jarðvangar stofnaðir?

Jarðvöngum hefur vaxið fiskur um hrygg síðan 1999 þegar UNESCO fór að styðja markvisst við uppbyggingu jarðvanga innan sinnan vébanda. Jarðvangar hafa orðið mjög vinsælir vegna þeirrar samþættingar sem verður við uppbyggingu þeirra á sviði verndar, sjálfbærrar þróunar í samvinnu við þau samfélög þar sem þeir starfa. UNESCO leggur áherslu á að styðja vel við lönd innan sinna samtaka sem hafa áhuga á að byggja upp jarðvanga. Það er gert í gegnum Global Network of National Geoparks. Í september 2011 voru 87 félagar í samtökunum í 27 löndum. Sjá nánar á vef Global Geopark Network 

Erum við ekki að dreifa kröftunum of mikið á svæðisgarð, þjóðgarð og jarðvang? 

Eitt mun styðja annað. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur sína sérstöðu en með svæðisgarðinum getur samfélagið á Snæfellsnesi betur nýtt sér þjóðgarðinn sem hluta af heild, svæðisgarðurinn mun auk þess styrkja atvinnulífið í heild. 

Jarðvangur myndi einnig styrkja Snæfellsnesið með sinni þemabundnu nálgun, þar sem hann myndi laða sérstaklega að ferðamenn og áhugafólk um jarðfræði.

Er svæðisgarður aðallega fyrir ferðaþjónustuna? 

Svæðisgarðar eru fyrir allar atvinnugreinar þó ef til vill eigi ferðaþjónustan auðveldast með að nýta sér þau tækifæri sem skapast fyrst í stað. Sú sérstaða og þjónustunet sem dregið verður upp með svæðisgarðinum, mun styrkja ferðaþjónustuna, en ekki síður aðrar greinar atvinnulífsins og menningu. Það er svo í höndum þeirra sem standa að mótun og stofnun svæðisgarðsins að ákveða áherslur í uppbyggingu svæðisgarðsins. Því er mikilvægt að sem flestar atvinnugreinar og íbúar allir eigi aðkomu að verkefninu. 

Verður allt verndað og ósnertanlegt í svæðisgarði eða verða einhverjar aðrar takmarkanir á nýtingu? 

Mótun og uppbygging svæðisgarðsins mun taka um tvö ár. Á því tímabili verður kortlagt með íbúum og atvinnulífi hvaða svæði þykja sérstök þannig að ástæða sé til að varðveita, en einnig svæði sem mögulega má þróa nánar með tilteknar hugmyndir að leiðarljósi. Þó svæði verði skilgreind "sérstök", þá felur það ekki í sér að þau verði sett á náttúruminjaskrá og vernduð skv. náttúruverndarlögum. Það yrði einvörðungu ef tekin yrði sérstök ákvörðun um það.

Hefur svæðisgarðurinn eitthvað með náttúruvernd að gera? 

Það er ekki megintilgangur með stofnun svæðisgarðs. Í rauninni helst þá á þann hátt að vinnan snýst um að skilgreina sérstöðu Snæfellsness og samfélagsins þar. Að því leyti sem sérstaðan snýst um náttúruna og það sem Snæfellingar telja vert að draga fram og vekja athygli á, þar kann að vera eitthvað sem menn telja ástæðu til að varðveita - sé það ekki þegar gert. 

Vinnan við mótun svæðisgarðs felur í sér að mörkuð verður stefna um það hvernig Snæfellingar vilja sjá byggðina og samfélagið þróast í samráði íbúa og sveitarfélaga. Stefnan fær sess í svæðisskipulagi sem verður leiðarljós um þá þætti sem aðilar sammælast um að setja í stefnuna.

Kemur svæðisgarðurinn í veg fyrir mögulega uppbyggingu í framtíðinni? 

Ekki svo fremi sem hún fylgi þeirri sýn og stefnu sem samfélagið mótar sér í svæðisgarðsvinnunni, sbr. svar við spurningunni hér á undan.

Hvernig geta fyrirtæki nýtt sér það að vera í svæðisgarði? 

Fyrirtæki geta nýtt sér þá yfirsýn sem fæst við skipulagningu svæðisgarðs, t.d. á sviði sögu, menningar, landslags, lífríkis og jarðfræði - m.a. til þróunar á vöru og þjónustu. Þau munu einnig geta nýtt sér vörumerki svæðisgarðsins, vörum sínum og þjónustu til framdráttar, ef þau uppfylla gæða- og umhverfiskröfur sem að baki merkinu búa. 

Gera má ráð fyrir fjölgun ferðamanna, þar sem betri yfirsýn mun fást um þá þjónustu sem er í boði á Snæfellsnesi og hvað svæðið býður upp á þegar kemur að sögu, menningu, lífríki, jarðfræði, mat o.fl. 

Gera má ráð fyrir að ný fyrirtæki fari af stað á grundvelli hugmynda sem verða til við þróun svæðisgarðsins. 

Loks ber einnig að nefna að svæðisgarðurinn mun sjá til þess að í boði verði námskeið til leiðbeiningar fyrir þá aðila sem vilja nýta sér svæðisgarðinn til atvinnusköpunar.  

Hvernig tengist svæðisgarður matvælaframleiðslu?

Svæðisgarður kemur til móts við vaxandi óskir fólks um að skilja og þekkja uppruna vöru og matvæla. Það er æ algengara að kallað sé eftir upplýsingum um hvar og hvernig vara er framleidd, ræktuð eða veidd. Reynslan er sú að vörur sem sýnt er fram á að framleiddar séu í sátt við umhverfi og samfélag, seljast iðulega á hærra verði. 

Bakgrunnur og upplýsingagjöf í svæðisgarði styður við þetta og vörumerki svæðisgarðs vísar til þess sama.