Svæðisgarður í hnotskurn

Hvað er svæðisgarður?

Svæðisgarður er fjölþætt samstarf fyrirtækja, sveitarfélaga og félagasamtaka á svæði sem myndar samstæða landslags- og menningarlega heild.

Samstarfið byggist á sameiginlegri sýn um sérstöðu svæðisins og samtakamætti við að hagnýta sérstöðuna og vernda hana.

Hvernig verður svæðisgarður til?

Íbúar, fyrirtæki og sveitarstjórnir á afmörkuðu svæði taka sig saman og skilgreina sérstöðu svæðisins og þau gæði sem þar er að finna. Síðan byggja aðilarnir samstarf sitt, um atvinnu- og samfélagsþróun, á þessari sérstöðu.

Iðulega hefur verið komið á umfangsmiklu samstarfi á öllum sviðum mannlífs, svo sem við skóla, fyrirtæki, hverskonar samtök og sveitarfélög.

Hvað fæst með svæðisgarði?

Við mótun svæðisgarðs eru sérstaða og gæði í náttúru og samfélagi dregin fram og skýrð. Afraksturinn er gerður aðgengilegur og settur fram á notadrjúgan hátt. Þá geta fyrirtæki sótt þangað efnivið í hugmyndir, kynningargögn og vöruþróun eða komið auga á tækifæri til samstarfs. Eftir að svæðisgarðurinn er tekinn til starfa verður hann vettvangur margvíslegs samstarfs og miðlunar á forsendum heimamanna og á grundvelli sérstöðu og landkosta. Með svæðisgarði verður þannig einn plús einn að þremur.