Tilefni og ávinningur

Í febrúar - mars 2011 ákváðu aðilar á Snæfellsnesi að vinna saman að því að kanna hvort það væri álitlegur kostur að stofna svæðisgarð á Snæfellsnesi og hvaða aðferðafræði væri heppilegust til slíks. 

Stýrihópur, skipaður fulltrúum aðila, skilaði af sér í septemberbyrjun 2011. Afrakstur vinnu hópsins var m.a. verkefnisáætlun um mótun og stofnun svæðisgarðs. Auk þess var á vegum stýrihópsins safnað saman upplýsingum sem birtast á þessum vef. 

Ráðgjafarfyrirtækið Alta hafði kynnt aðilum í atvinnulífi og sveitarfélögunum á Snæfellsnesi þessa hugmynd eftir ítarlega skoðun á þróun svæðisgarða og hvernig þeir hafa stuðlað að og stutt við atvinnuuppbyggingu á svæðum þar sem markvisst og vel hefur verið að verki staðið. Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú að svæðisgarðar gætu fallið vel að samfélagslegum og landfræðilegum aðstæðum hér á landi, þar sem sérstaða er skýr og að þeir geti átt þátt í að styrkja þróun byggðarlaga með aukinni og fjölbreyttari atvinnustarfsemi.