Ögrunin

Hér er að finna grófa greiningu á þróun og ýmsum þáttum í starfsumhverfinu á Snæfellsnesi. 

Í þessu felast þær ögranir sem samfélögin á Snæfellsnesi standa frammi fyrir. 

Samfélag og efnahagur

Á síðustu árum og áratugum hafa átt sér stað umfangsmiklar samfélagsbreytingar á Íslandi. Þróunin hefur m.a. verið á þá leið að landsbyggðin hefur verið að tapa fólki. Íbúafækkunin hefur líka orðið á Snæfellsnesi, þó svæðið hafi að mörgu leyti haldið betur í sitt fólk en ýmis önnur svæði á landsbyggðinni. 

Sé litið tvo til þrjá áratugi aftur í tímann kemur í ljós að íbúafækkun er heldur ekki algild og sveiflur hafa verið í íbúaþróun, upp á við og niður á við, í einstökum sveitarfélögum. 

 

Mynd 1: Mannfjöldi 1. desember 1971-2009 – vísitala þar sem 1971 er grunnár. 
Byggt á tölum Hagstofu Íslands og Byggðastofnunar.

Áhyggjuefni er hve stór hluti fækkunarinnar er úr hópi yngri íbúa, þannig að samfélög hafa mörg hver elst mjög hratt. 

Afleiðingar þess eru að vinnandi höndum fækkar og tekjur dragast hraðar saman heldur en íbúaþróunin gefur til kynna. 

Fækkun í yngri aldurshópum veldur því einnig að kostnaðarsamara verður að halda úti þjónustu við þá, sérstaklega leik- og grunnskólum. Hagkvæmni stærðarinnar - eða óhagkvæmni smæðarinnar - segir þar til sín. 

Mynd 2: Aldurstré á Snæfellsnesi.
Árið 2010 í samanburði við 1994 og landið allt.  Heimild Hagstofa Íslands

Fækkun íbúa og fækkun starfa helst í hendur. Íbúafækkun getur verið afleiðing af fækkun starfa, en fækkun starfa getur líka leitt af íbúafækkun, því bæði verður aðgengi fyrirtækja að starfskröftum þá lakara og eins er þekkt að fólk flytji störfin sín með sér í burtu. 

Afleiðingar samdráttar í veiddum afla síðustu misserin hafa sagt til sín í sjávarbyggðunum á Snæfellsnesi, en á móti kemur að hærra verð hefur fengist fyrir sjávarafurðir og tekjur sjávarútvegsins hafa því ekki dregist saman, sem aflasamdrætti nemur. 

Alvarlegt ástand í efnahagsmálum á Íslandi er ekki einungis bundið við ríkið og ríkissjóð, heldur einnig sveitarfélögin, sem flest hafa þurft að gæta ítrasta aðhalds og draga úr rekstrargjöldum sínum. Þau leita einnig leiða til að auka tekjur sínar og laða til sín fólk og fyrirtæki. 

Vaxandi þungi hefur verið á aðgerðir af hálfu opinberra aðila, bæði ríkis og sveitarfélaga, um að greiða fyrir nýsköpun eða veita annan stuðning við atvinnuskapandi áætlanir, verkefni og stakar aðgerðir. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa reynt að búa í haginn fyrir atvinnulíf á margvíslegan hátt. 

Við þessum ögrunum hafa fyrirtæki og samfélög reynt að bregðast og spyrna við á margvíslegan hátt.  

Vilji er til staðar að snúa vörn í sókn og horfa til framtíðartækifæra, til þess hvernig nýta megi margvíslega auðlegð svæðisins og byggja á sérstöðu þess. Þannig megi takast að styrkja grunn sem leitt getur til fjölbreyttari atvinnustarfsemi.