Verðmæti og tækifæri

Í svæðisgarðsverkefninu hefur verið dregin upp mynd af náttúru, menningu og sögu Snæfellsness og þeim anda sem einkennir svæðið þannig að svæðið sem heild fái skýra ímynd í hugum bæði heimamanna og gesta. Jafnframt fékkst með því gott yfirlit yfir auðlindir og verðmæti svæðisins og góður grunnur skapaðist fyrir mótun sameiginlegrar stefnu sveitarfélagnna og fulltrúa úr atvinnulífinu. 

Þegar dregin hafði verið upp af mynd af sérkennum og staðaranda svæðisins var fjallað um hvernig hægt væri að vinna með þau og nýta á áhrifaríkan hátt innan ólíkra atvinnugreina, t.d. til markaðssetningar eða þróunar vöru og þjónustu. Einnig var sérstaklega skoðað hvernig atvinnugreinar gætu unnið saman með sérkenni og anda svæðisins t.d. til að þróa nýjar vörur eða nýja þjónustu. Til að setja fram hugmyndir um þetta voru fulltrúar mismunandi atvinnugreina leiddir saman í vinnuhópum. Hlutverk svæðisskipulagsins var síðan að festa í sessi stefnu um hvernig sveitarfélögin og aðrir þeir sem standa munu að svæðisgarðinum hyggjast stuðla að samvinnu atvinnugreina til eflingar byggðar á svæðinu; og einnig stefnu um hvernig stuðlað verður að því að sérstaðan nýtist við þróun vöru og þjónustu.