Greining

Hluti svæðisskipulagsvinnunnar er að safna saman tiltækum gögnum um náttúrufar, byggð, sögu, atvinnulíf og innviði svæðisins og setja þau fram með þeim hætti að þau geti nýst með fjölbreyttum hætti, t.d. við að: 

  • Skilgreina staðaranda svæðisins.
  • Marka stefnu um nýtingu auðlinda, umgengni við landið og verndun verðmæta sem felast í umhverfi, sögu og menningu svæðisins.
  • Miðla þekkingu heimamanna og styrkja um leið vitund þeirra um gæði og verðmæti svæðisins og hvernig hægt er að nýta þau til atvinnusköpunar.
  • Þróa vöru og þjónustu á svæðinu.
  • Kynna Snæfellsnes meðal ferðamanna, fyrirtækja og fjárfesta.
  • Greina hvernig hægt er að nýta auðlindirnar og viðhalda staðaranda og sérkennum og með því styðja við þróun vöru og þjónustu á svæðinu.
  • Marka stefnu um viðhald og nýtingu sérkenna og verðmæta svæðisins, með því að setja fram markmið og skilgreina leiðir að þeim, s.s. áherslur fyrir aðalskipulagsgerð, tilteknar aðgerðir eða verkefni. 

Sérkenni svæðisins og umhverfisaðstæður

Sett hefur verið fram heildstætt yfirlit yfir Snæfellsnesið, hvað þar er að finna og hvað gerir það einstakt og frábrugðið öðrum svæðum. Stiklað er á stóru og áhersla lögð á að draga upp heildarmynd sem unnið er áfram með í lýsingu „karaktersvæða", sbr. að neðan. Í yfirlitinu er fjallað um: landmótun og vatnafar, gróðurfar og dýralíf, atvinnulíf, búseta og landnotkun, samfélag og menning, menningarlegar skírskotanir og skynjanir og upplifanir.

Lýsing „karaktersvæða"

Drög að greiningu á landslagi Snæfellsness, í víðri merkingu orðsins landslags, liggja nú fyrir og má nálgast þau hér. Greiningin byggir á  breskri aðferðafræði sem kallast "Landscape Character Assessment". Út frá greiningunni er Snæfellsnesi skipt upp í 13 „karaktersvæði“ eða landslagseiningar. Hverju svæði er síðan lýst þannig að heildstætt yfirlit fáist yfir einkenni hvers svæðis og um leið einkenni Snæfellsness í heild. Upplýsingar um svæðin skapa umræðugrundvöll og sameiginlegt tungumál fyrir starf vinnuhópa um svæðisgarð og mótun stefnu í svæðisskipulagi. Vinnuhóparnir, svæðisskipulagsnefnd og stýrihópur um svæðisgarð munu nýta gögnin til að ræða sérstöðu, tækifæri og möguleg verkefni innan hvers svæðis, þ.m.t. mögulega söguþræði og leiðir til að miðla þeim. Einnig áherslur varðandi starfsemi, landnotkun og mannvirkjagerð á hverju svæði.

ATHUGIÐ AÐ ÞETTA ERU ENN DRÖG - ÞAU GETA ENN TEKIÐ BREYTINGUM - ENDILEGA LÁTIÐ VITA EF ÞIÐ SJÁIÐ STAÐREYNDAVILLUR EÐA VILJIÐ BÆTA VIÐ EÐA BREYTA TEXTA EÐA ÖÐRU. 

Atlas Snæfellsness

Kort yfir náttúru- og menningarauðlindir Snæfellsness er að finna hér. Kortin eru flest jafnframt birt í skjalinu "Lýsing svæðisskipulagsverkefnis: Viðauki" en hér eru þau birt í stærri útgáfu.

Kortin eru sett fram sem drög á þessu stigi og er ætlað að vera grunnur að umræðum í vinnuhópum um svæðisgarð. Kortin verða lagfærð og unnin áfram eftir því sem rýni og umræður í vinnuhópum gefa tilefni til. 

Allar ábendingar um villur, viðbætur og frekari gögn sem nýst gætu við að kortleggja sérkenni Snæfellsness má senda til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Kortavefsjá 

Hluti þeirra korta  sem unnin voru í tengslum við svæðisskipulag um svæðisgarð hafa verið sett fram í kortavefsjá. Vefsjáin gefur yfirlit yfir sérkenni og sögu Snæfellsness um leið og hún er mikilvægt verkfæri svæðisskipulagsnefndar við stefnumótun í svæðisskipulagi, framsetningu og miðlun stefnunnar þegar þar að kemur. Þannig nýtist hún heimamönnum jafnt sem gestum við að sjá þau tækifæri sem í svæðinu búa. 

Kortin eru enn sem komið er sett fram sem drög og í þeim kunna að leynast villur eða ónógar upplýsingar. Ábendingar og athugasemdir má gjarnan senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Spurningakönnun meðal ferðamanna

Í júli og ágúst 2012 lá frammi á helstu ferðamannastöðum á Snæfellsnesi spurningakönnun, þar sem ferðamenn voru spurðir um ferðalag sitt og upplifun sína af Snæfellsnesi. Könnunin var sett fram á íslensku og ensku.  219 svör bárust; 163 frá erlendum ferðamönnum og 56 frá Íslendingum. 

Við úrvinnslu á þessu stigi var lögð áhersla á að taka saman punkta sem nýttust við mótun svæðisskipulags. Sett er fram grófunnið yfirlit yfir svör við þeim spurningum sem helst varða atriði í svæðisskipulaginu. Við skoðun þessara punkta þarf að hafa í huga að ekki var um úrtakskönnun að ræða. Svörin endurspegla því einungis viðhorf þeirra sem tóku sér tíma til að svara könnuninni. Þó má líta á þau sem ákveðnar vísbendingar um sjónarmið og upplifun þeirra sem heimsóttu Snæfellsnes sumarið 2012.

Fundir með unga fólkinu

Í lok desember 2012 var haldinn kynningar- og spjallfundi  með ungu fólk á Snæfellsnesi á í tengslum við svæðisgarðsverkefnið. Markmið fundarins var að fá fram skoðanir þeirra á því hverjir væru helstu kostir þess að alast upp og/eða búa á Snæfellsnesi og hvaða tækifæri þau sæju í störfum og búsetu þar í framtíðinni. Hér má sjá samantekt af umræðum fundarins en efniviðurinn verður nýttur í vinnu við mótun svæðisgarðs á Snæfellsnesi.

Í byrjun febrúar 2013 hittist aftur hópur af ungu fólk af Snæfellsnesi á kynningar- og spjallfundi í tengslum við svæðisgarðinn. Fundurinn var haldinn í Reykjavík og var ætlað að ná til þeirra sem þar dvelja við nám eða störf. Markmið fundarins var að fá fram skoðanir ungs fólks á því hvað gerir Snæfellsnesið sérstakt og heyra hvaða tækifæri það sæi í störfum og búsetu þar í framtíðinni. Hér má sjá samantekt af umræðum fundarins. 

Það sem kom fram á fundunum verður nýtt í vinnu við svæðisskipulag á Snæfellsnesi og frekari vinnu við mótun svæðisgarðs.

Fundir með vinnuhópum

Í nóvember 2012 voru settir á fót vinnuhópar í tengslum við svæðisgarð á Snæfellsnesi, til að aðstoða svæðisskipulagsnefnd og stýrihóp svæðisgarðsverkefnisins við að draga fram sérkenni og auðlindir Snæfellsness, sögurnar sem þau segja, tækifærin sem búa í þeim og hvaða áherslur ætti að marka fyrir svæðið. 

Vinnuhóparnar voru þrír og í hverjum þeirra sátu 10-15 manns. Fyrir hópunum fóru fulltrúar úr svæðisskipulagsnefnd eða stýrihópi um svæðisgarð:

1.  Snæfellskur náttúruauður. Formaður: Gretar D. Pálsson, formaður svæðisskipulags­nefndar Snæfellsness

2.  Snæfellskur menningarauður.  Formaður: Ragnhildur Sigurðardóttir, varaformaður svæðisskipulagsnefndar.

3.  Snæfellskur þekkingarauður.  Formenn: Kristín Rós Jóhannesdóttir, fulltrúi í svæðisskipulagsnefnd og Kristín Björg Árnadóttir fulltrúi í stýrihópi um svæðisgarð.

Hér má lesa um starf vinnuhópanna en þeir funduðu þrisvar á tímabilinu nóvember 2012  til febrúar 2013.