Drápuhlíðarfjall – brosir blítt við þeim sem eiga leið hjá
„Á Drápuhlíðarfjall er stutt og auðveld ganga. Frá tindinum má sjá búsetulandslag og Breiðafjörð í norðri en hraunbreiður og hærri tinda til suðurs.“
Drápuhlíðarfjall (527 m) brosir blíðlega við þeim ferðalöngum sem eiga leið hjá því. Bergefni fjallsins er líparít (rýólít) og er fjallið því afar litskrúðugt með gylltum, rauðum, bláum, gráum og grænum litum sem myndast náttúrulega í berginu.
Áður fyrr trúðu menn því að gull væri að finna í fjallinu og að það skýrði gyllta litinn, en rannsóknir leiddu síðar í ljós að þar var ekki að finna gull í neinu vinnanlegu magni.
Auðvelt er að ganga á fjallið ef að gönguleiðinni er fylgt. Frá tindinum má sjá búsetulandslag og Breiðafjörð í norðri en hraunbreiður og hærri tinda til suðurs. Við fjallsræturnar er bílastæði og þaðan er hægt að ganga á fjallið. Gönguleiðin liggur yfir mýrar og skriður í byrjun en einnig er hægt að ganga umhverfis vatnið. Í góðu veðri er hægt að sjá alla litadýrðina sem einkennir fjallið.