Í átt að sjálfbærara samfélagi
„Náttúran færir okkur hráefni, hreint vatn og skjól, hún hitar húsin okkar og veitir okkur innblástur – við verðum að standa vörð um náttúruna. Sögur Snæfellsness eru áþreifanlegar í landslagi og mannvirkjum, og við verðum að muna að sögur tilheyra ekki aðeins fortíðinni, heldur líka framtíðinni. Við erum enn að skrifa.“
Náttúran færir okkur hráefni, hreint vatn og skjól, hún hitar húsin okkar og veitir okkur innblástur – við verðum að standa vörð um náttúruna. Sögur Snæfellsness eru áþreifanlegar í landslagi og mannvirkjum, og við verðum að muna að sögur tilheyra ekki aðeins fortíðinni, heldur líka framtíðinni. Við erum enn að skrifa.
Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa sameinað krafta sína við að varðveita náttúru, samfélag og menningu og skrifa nýjar sögur með sjálfbærni að leiðarljósi. Við viljum geta litið um öxl og verið stolt af því sem við gerðum fyrir okkar nærumhverfi og til að draga úr loftslagsvánni.
Á Snæfellsnesi liggja stígar um marga heillandi staði, til að vernda umhverfið og auka öryggi gesta. Á Snæfellsnesi er minna rusl við strendur og á landi vegna þess að við höfum tekið á úrgangsmálum og við stöndum reglulega fyrir hreinsunum. Á Snæfellsnesi er víða hægt að ferðast um gangandi, hjólandi, á hestum, kajökum og stöðugt er unnið að því að efla möguleika til annarra samgöngumáta en ökutækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Á Snæfellsnesi eru svæðisbundið hráefni sett í forgang.
Snæfellsnes hlýtur EarthCheck umhverfisvottun árlega sem undirstrikar að við viljum bæta frammistöðu okkar fyrir umhverfi og samfélag. Við viljum geta sagt sögur sem eru líka ánægjulegar fyrir þá sem á eftir koma.