Snæfellsnes – heimilið okkar
„Ósnortin náttúran lætur engan ósnortinn.
Snæfellsnes hreyfir við öllum sem hér dvelja, hvort sem um lengri eða skemmri tíma er að ræða. Hér eru þekkt náttúruundur á borð við Kirkjufell, Breiðafjörð með sínum óteljandi eyjum, og Snæfellsjökul. Á Snæfellsnesi er mikil fjölbreytni. Hér má finna allt það helsta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða á einu og sama svæði, og þú getur kynnst heimamönnum líka.
Í hafinu umhverfis Snæfellsnes, einkum og sér í lagi á Breiðafirði, eru auðug vistkerfi og gnótt matar sem heimamenn hafa sótt í frá upphafi byggðar og gera enn með sjálfbærum hætti. Innri hluti Breiðafjarðar nýtur sérstakrar verndar. Einkenni svæðisins er mikill líffræðilegur fjölbreytileiki, fjöldi eyja og skerja sem sögð eru óteljandi, sterkir straumar og mikill munur á flóði og fjöru.
Á ferð um Snæfellsnes má sjá dæmi um hefðbundinn búskap; sauðfé, hesta og kýr á beit. Sjávarþorp, þar sem hafnirnar iða af lífi. Óröskuð hraun í allri sinni dýrð. Eldstöðina Snæfellsjökul, sem er hulin jökli og talin búa yfir dularkröftum. Svarta, hvíta og græna sanda, bratta og fagra fjallstinda, firði og víkur, dali og heiðar. Hér má finna vatn í öllum sínum myndum; ár og læki, fossa, ölkeldur og fjölbreytta baðstaði.
Þú getur upplifað töfrana með hvaða hætti sem þú kýst, með stuttri fjörugöngu, krefjandi fjallgöngu eða með því að leggjast í lyngið og hlusta á fuglasönginn.